Grautarstund í Kvosinni
Grautarstund í Kvosinni

Menntaskólinn á Akureyri er í hópi heilsueflandi framhaldsskóla og að því tilefni er nýbyrjuð vika kölluð heilsuvika. Þá verður lögð áhersla á heilbrigt líferni í hívetna.

Alla morgna vikunnar munu kennarar og starfsfólk bjóða nemendum upp á hafragraut og lýsi í Kvosinni við komuna í skólann, á bilinu klukkan 7.50 og 8.10. Í morgun byrjaði grautarskömmtunin og tókst mjög vel til og fyrirsjáanlegt að sjóða verður meiri graut næstu daga. Í sölubúð nemenda verður meiri áhersla lögð á ávexti og annað hollustufæði í stað sykurflæðandi sætabrauðs. Í Mötuneyti MA verðu líka einblínt á hollustu matar og ríkulegs grænmetis. Nemendur og starfsfólk MA fá ókeypis aðgang að opnum tímum og tækjasal á Líkamsræktinni Bjargi í vikunni. Loks verður íþróttadagur í Íþróttahöllinni fyrri hluta fimmtudagsins.

Umsjónarmaður heilsuvikunnar er Hólmfríður Jóhannsdóttir íþróttakennari og forvarnafulltrúi MA. Myndina tók Guðjón Hreinn Hauksson í grautartímanum í morgun.