- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Hópur kennara og starfsmanna skólans er kominn heim úr áhugaverðri kynnisferð til Parísar. Farið var í kynnisheimsóknir í þrjá ólíka menntaskóla og við það fékkst allgóð mynd af franska framhaldsskólakerfinu og hvernig það er útfært á mismunandi vegu.
Einn skólanna var Diderot-skólinn, sérhæfður tækni- og vísindaskóli og námið þar staðnám að langmestu leyti. Áhugavert var að sjá nemendur vinna að verkefnum sínum, meðal annars við að smíða klukkuverk og gera allt í höndum. Þar var einnig deild þar sem unnið var að alls kyns sjálfvirkni og tölvutengdum verkefnum, meðal annars var þar róbot og þar sást meðal annars hvernig ökutæki nútímans og framtíðarinnar byggjast öll meira og minna á örtölvutækni. Í raun var áberandi í því sem við sáum hve námið og kennslan var allt verkefnamiðað. Enn fremur var greinilegt að stjórnvöld sjá skólunum fyrir tækjum og tólum og búnaði öllum svo námið verður allt mun markvissara en þar allt er skorið við nögl sér og rúmlega það.
Hinir tveir skólarnir voru þannig að um það bil helmingur námsins fór fram innan veggja skólans en hinn helmingurinn í öðrum skólum eða á vinnumarkaði. Annars vegar var þetta Georges Brassens skólinn, lista- og menningarengdur skóli með aðaláherslu á dans og tónlist. Þar eru nemendurnir í tónlistarskóla eða dansskóla á móti menntaskólanáminu og geta svo auk þess unnið að sérverkefnum og aukaæfingum í skólanum. Til dæmis komum við í tónlistartíma þar sem voru nemendur á raungreina- og tónlistarbraut og þar fengum við að heyra ljúfan píanóleik og framúrskarandi flautuleik. Hinn skólinn, Belliard-skólinn, var menntaskóli fyrir verðandi matreiðslufólk og veitingaþjóna. Í þeim skóla er auk bóknámsins verkleg kennsla í vel búnum veislueldhúsum og glæsilegum veitingasölum, en nemendurnir eu svo til skiptis í skólanum eða úti á vinnumarkaðinum. Fram kom að mjög er sóst eftir menntuðu matreiðslu- og veitingafólki svo skólar af þessu tagi anna ekki eftirspurn. Það var skemmtilegt að vita, ekki síst af því að áberandi er í sumum öðrum löndum að þessi fyrirtæki séu meira og minna rekin af ódýru, ómenntuðu vinnuafli.
Fjórði skólinn sem við skoðuðum var sjálfur Sorbonne, en þar fórum við í ítarlega kynnisferð um gamlar og glæsilegar byggingar þessa veraldarkunna háskóla, fengum leiðsögn um sögu hans og listskreytingar. Þar að auki fórum við í heimsókn til Laufeyjar Helgadóttur listfræðings frá Dalvík, sem varð stúdent frá MA 1970 og eiginmanns hennar, Bernard Ropa, arkitekts sem hefur meðal annars hannað fjölmarga stóra skóla, bókasöfn og fleiri opinberar byggingar. Hann var lengi samstarfsmaður Högnu Sigurðardóttur arkitekts og það var meðal annars gaman að sjá hvernig Ropa, rétt eins og Högna, leggur áherslu á samspil bygginga sinna og náttúrunnar og umhverfisins. Skemmtilegt var að skoða myndir af verkum hans og heyra hann segja frá starfi sínu við skólahönnun.
Auk þessara skólaskoðana fór hópurinn í gönguferðir um París undir leiðsögn Arnar Þórs Emilssonar, sem átti drýgstan þátt í að skipuleggja ferðina og útvega skóla til heimsókna og tengiliði og leiðsagnarfólk í þeim, en Anna Eyfjörð Eiríksdóttir sá um fjármálahlið ferðarinnar og var líka auk Arnar túlkur og tengiliður í skoðunarferðunum um skólana. Enn fremur var farið í siglingu um Signu og sólseturs í París notið á fögru kvöldi.
Þessi kynnisferð heppnaðist afar vel og að henni lokinni eru í hugum ferðalanganna alls kyns hugmyndir um margt sem nýta má til að gera skólann okkar betri en hann er. Kalt var í veðri flesta dagana, þótt af og til sæi til sólar, og því eru ferðalangarnir vetrarlega klæddir. Tveir síðustu dagarnir voru þó nokkuð sumarlegir.