Við Menntaskólann í Örestad
Við Menntaskólann í Örestad

Hópur starfsmanna MA kom á laugardagskvöld heim úr kynnisferð í danska menntaskóla og tveir hópar nemenda komu nokkru fyrr úr ferðum sínum til Englands og Frakklands.

Hálfur þriðji tugur starfsmanna MA fór til Danmerkur annan í páskum í ferð sem skipulögð var til þess að skoða og kynna sér starfsemi í tveimur nýlegum menntaskólum, öðrum í Egaa í útjaðri Árósaborgar og hinum í Örestad, nýju hverfi Kaupmannahafnar, örskammt frá Kastrup. Í ferðinni var jafnframt farið í skoðunarferðir í Hróarskeldu og Ebeltoft og Aros-safnið í Árósum skoðað. Heimsóknir í skólana voru mjög fróðlegar og forvitnilegar og munu koma að góðu gagni í því starfi sem unnið er þessi misserin við að koma í gang nýrri námskrá MA.

Nemendur í fjórða bekk eðlisfræðideildar fóru í páskaleyfinu í náms- og kynnisferðir til Lundúna og nálægra háskólaborga í umsjá Brynjólfs Eyjólfssonar, eins og venja hefur verið í mörg ár, og að sama skapi var það að venju að nemendur í frönskuáfanga fóru með Erni Þór Emilssyni í kynnisferð til Parísar þar sem að þessu sinni var lögð áhersla á sigurbogana og nágrenni þeirra. Þessar ferðir þóttu takast afar vel.

Myndin hér er frá því þegar kennarar komu að Menntaskólanum í Örestad.