Ísland SAM skoðar Kristinu
Ísland SAM skoðar Kristinu

Í síðustu viku gafst nemendum Íslandsáfangans (Samfélagshluta) færi á að skoða stærsta skip fiskveiðiflotans, Kristinu EA-410. Það segir ýmislegt um stærð skipsins að þeir fjórir hópar (samtals 100 manns) sem fengu leiðsögn um skipið hittust nánast aldrei.

Segja má að heimsóknin hafi verið síðbúin lok á námslotu sem kallast Atvinnumál og byggðaþróun sem hófst með ferð til Siglufjarðar. Fullvíst má telja að þekking nemenda á sjávarútvegi og sögu hans hafi dýpkað mjög í þessum vettvangsferðum.

Einhverjir hafa eflaust fengið glýju í augun við að sjá fullkominn tækjakost skipsins, líkamsræktaraðstöðu og flennistóra flatskjái og að komast að því að sjómenn geta í auknum mæli komist á netið. Í grunninn hefur sjómennskan þó lítið breyst; sjómenn vinna erfiðisvinnu fjarri fjölskyldum sínum og kannski breytir ekki miklu hvort miðin eru við Vestur-Sahara eða úti fyrir Vestfjörðum.

Nú er annað ár Íslandsáfangs nánast hálfnað og margt gott hægt að segja um hann (og slæmt eflaust líka). Það er mikill kostur við áfangann að geta farið með nemendur út af örkinni án þess að allt skólastarf þurfi að riðlast og vonandi að framhald verði á vettvangsheimsóknum eins og þessari í Kristinu.

Guðjón H. Hauksson var með myndavél og tók þessa mynd og nokkrar fleiri sem sjá má með því að fara á Skólatorg og þar í myndasöfn.