- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands heimsótti Menntaskólann á Akureyri í dag í tilefni að evrópska tungumáladeginum, sem að vísu var á sunnudaginn var í þetta sinn
Vigdís ávarpaði nemendur og starfsfólk skólans á Sal í Kvosinni og ræddi þar meðal annars um gildi tungumála, mikilvægi þeirra í samskiptum þjóðanna, hversu miklu máli skipti að geta talað við fólk í fjarlægum löndum á þess eigin máli. Hún benti á nauðsyn þess að rækta íslenskt mál vegna þess að það væri svo merkilegt og svo lítið breytt um aldir og til þess væri tekið í útlöndum. Hún hvatti nemendur líka til að leggja stund á fleiri mál en ensku, ekki síst norðurlandamálin, lykilinn að námi og menningu á Norðurlöndum. Tungumálakunnátta væri lykillinn að öllum heiminum og öllum heimsins vísindum. Í lokin svaraði Vigdís nokkrum spurningum nemenda, aðallega um gildi málakunnáttu og hvernig hún nýttist henni í starfi.
Jón Már Héðinsson skólameistari veitti Vigdísi gullugluna, heiðursmerki skólans, við mikinn fögnuð viðstaddra og hún þakkaði þann heiður sem sér væri sýndur. Hún gaf sér tíma til að spjalla við nemendur á göngu sinni um skólann og meðal annars kom hún í tíma á ferðamálakjörsviði 4. bekkjar. Stundin með Vigdísi í MA var ljúf og eftirminnileg.
Í þessari heimsókn Vigdísar og föruneytis hennar kynnti Auður Hauksdóttir forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur kennurum skólans hugmyndir að baki stofnun alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar, en um hana sagði Vigdís sjáf að hún tryði því að þessi stofnun yrði mikilvægt tæki til að standa vörð um íslenskt mál meðal annarra mála heimsins.
Fleiri myndir frá degi Vigdísar Finnbogadóttur í MA má sjá hér
.