- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Víða tíðkast á bókasöfnum að bjóða lesþyrstum gestum upp á bækur sem ekki þarf að skila. Bókasafn MA er þar engin undantekning. Þegar gengið er inn á safnið má sjá einmanalegt borð sem þó er iðandi af lífi og stútfullt af kræsingum í formi bóka sem spanna útgáfu síðustu hundrað ára. Borðið lætur lítið yfir sér og vekur í raun ekki mikla athygli safngesta. Gaman er að staldra við og renna yfir úrval þeirra bóka sem hafa lokið hlutverki sínu á safninu. Á þriðja hundrað titla hvíla á borðinu eftir vel unnin störf undanfarinna ára og áratuga og bíða þess að verða fargað eða finna réttu hilluna í lífinu. Meðal bóka sem bíða örlaganna á bókasafni MA eru Eins manns kona – minningar Tove Engilberts eftir Jónínu Michaelsdóttur, bók Raísu Gorbatsjov Ég vona og Ættjörð mín kæra – ævisaga Hermanns Jónassonar forsætisráðherra sem skráð er af Indriða G. Þorsteinssyni. Sonur Indriða, krimmakóngurinn Arnaldur leynist í kiljuformi í bókinni Grafarþögn sem kom út árið 2001. Fyrir bókina hlaut hann á sínum tíma norræna Glerlykilinn og breska Gullrýtinginn. Grafarþögn er á bókasafni MA fyrir þá sem vilja eiga notalega stund með góða bók við höndina. Hið sama má segja um aðra verðlaunabók frá Steinunni Sigurðardóttur. Steinunn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Hjartastað árið 1995. Bókin er nú fáanleg á bókasafninu án endurgjalds. Dyrnar þröngu eftir Kristínu Ómarsdóttur kom út sama ár og Brotahöfuð Þórarins Eldjárn ári síðar. Aukinheldur eiga Björn Th. Björnsson, Þórunn Valdimarsdóttir og Guðlaugur Arason titla á borðinu góða og eru þó aðeins örfáir höfundar nefndir til sögunnar. Af erlendum bókum og höfundum má nefna Grasið syngur (The Grass Is Singing) eftir Nóbelsverðlaunahafann Doris Lessing. Grasið syngur var fyrsta skáldsaga Lessing en hún kom út árið 1950. Hægur vals í Cedar Bend eftir metsöluhöfundinn Robert James Waller kom út í íslenskri þýðingu árið 1995. Þá eru spennusagnahöfundar fyrirferðamiklir á hlaðborði bókasafnsins. Höfundar á borð við P.D. James, Michael Crichton, Evelyn Anthony og John Grisham eru falir fyrir ekki neitt. Inn á milli leynast líka gamlir gullmolar. The Go-Between er frá árinu 1954 og er eftir breska rithöfundinn L. P. Hartley. Breska leikskáldið Harold Pinter vann kvikmyndahandrit upp úr bókinni árið 1971 sem skilaði sér í bíómynd með þeim Julie Christie og Alan Bates í aðalhlutverkum. Myndin hlaut Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes sama ár. Önnur athyglisverð bók er innbundið ljósrit af bók Björns K. Þórólfssonar frá árinu 1924, Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu – með viðauka í orðmyndum á 16. öld og síðar. Bókin er merkt tveimur heiðursmönnum, þeim Guðna Kolbeinssyni (mars 1974) og Jóni Má Héðinssyni (e.d.).