- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Samkeppnin Fegursta orðið fór fram nýverið á vegum Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Ríkisútvarpsins. Fólk var beðið að senda inn tillögur um fegursta orð íslenskunnar og skýringar á því af hverju þeir teldu það fegurst. Sérstök dómnefnd valdi 10 fegurstu orðin í þremur aldursflokkum þeirra sem sendu inn tillögur. Valið var orð og besta lýsingin á því.
Nemendur í 4. bekk C og D tóku þátt í keppninni að undirlagi íslenskukennara síns Eyrúnar Huldar Haraldsdóttur. Skemmst er frá því að segja að orðið hugfanginn með skýringu Sigrúnar Stellu Þorvaldsdóttur í 4. C lenti í 10 orða úrtaki í 2. aldurshópi (fæddir 1988-1997). Orðið seigla var einnig í úrtakinu. Nokkrir strákar í 4. D sendu það inn, en nefndin valdi aðra skýringu en þeirra.
Nemendur í menningarlæsi í 1. bekk tóku margir þátt í keppninni og orðið fiðringur með skýringu Hugrúnar Sigurðardóttur í 1. H lenti í úrtakinu.
Vefkosning fór fram þar sem valin voru 3 fegurstu orðin í hverjum aldursflokki. Hugfanginn varð í 1. sæti í flokki 16-25 ára og það varð jafnframt í 2. sæti í keppninni í heild. Sigurvegarinn Sigrún Stella segir: Orðið merkir að vera heillaður af einhverjum, maður er fangi í sínum eigin huga. Þú ert gagntekinn af einhverju eða einhverjum. Mér finnst orðið mjög fallegt.
Fiðringur varð í 2. sæti í þessum sama flokki. Hugrún segir um það: Alltaf þegar ég hugsa um fiðring hugsa ég um eitthvað skemmtilegt. Þú færð fiðring í magann áður en þú ferð í rússíbana eða gerir eitthvað spennandi. Tilfinningin sem kemur er nánast ólýsanleg en samt virðist þetta orð lýsa því eins vel og hægt er, nokkrar fjaðrir í maganum á þér sem kitla þig alla að innan. Hver fékk ekki fiðring í magann þegar maður kyssti einhvern í fyrsta skiptið….?
Seigla hafnaði svo í þriðja sæti í keppninni.
Alls voru 8500 orð send inn í keppnina og rúmlega 13 þúsund manns tóku þátt í vefkosningunni. Það er frábært að nemendur MA skuli eiga þrjú orð í 30 orða úrtakinu - og ná tveimur efstu sætunum í sínum flokki. Innilega til hamingju með það, krakkar.
(Myndin tekin að láni á veraldarvefnum)