Af sólarlandaförum þeim sem sagt hefur verið frá er allt gott að segja, allir heilir og finna sér fjölmargt að gera í sólskininu.

Eins og sagt hefur verið frá er um 190 manna hópur úr MA staddur á Costa del Sol. Það er einhver stærsti hópur nemenda MA sem farið hefur í slíkar ferðir. Nútímatækni, símar og tölvur, gera það að verkum að ferðalög sem þessi eru meira og minna í beinni útsendingu á Facebook og öðrum samskiptamiðlum og samband ferðalanganna við vini og venslafólk heima miklu meira en áður fyrr, þegar jafnvel engum datt í hug að láta vita af sér í nokkurra vikna ferð til útlanda, og póstkortin skiluðu sér yfirleitt löngu eftir heimkomu.

Karen Júlía Sigurðardóttir námsráðgjafi og sálfræðingur skólans er með í ferðinni og hún sendi svolítinn pistil sem hér verður veitt úr til upplýsinga sem áhuga hafa á ferðinni.

"Ferðin hefur gengið stórslysalaust fyrir sig hingað til og vonum við að það haldi áfram!" segir hún. Í svona fjölmennum ferðum verði þó alltaf einhverjir fyrir hnjaski.  "Það hafa komið nokkrar skrámur, einn þurfti sauma eftir að hafa dottið en ekkert meira en það." Karen segir nemendur hafa notið sín í sólbaði við sundlaug og á strönd auk þess að skoða nánasta umhverfi. Þá hafi margir farið í klæðasöfn (sem er skrautyrði yfir fatabúðir) svo ekki komi allir heim í gömlu lörfunum einum. "Í gær fóru um 40 nemendur og tveir starfsmenn í mjög skemmtilega ferð til Gíbraltar að kynna sér náttúru og sögu staðarins auk þess að hitta nokkra hressa apa! Í dag eru nokkrir nemendur í Granada en aðrir halda áfram afslöppun og verslunarleiðangrum. Á morgun stendur nemendum til boða að fara í vatnsrennibrautagarð og á fimmtudag stefnir stór hluti hópsins til Marokkó."

Það er greinilega kappnóg við að vera á daginn auk þess að baða sig í sólskininu, en á kvöldin segir Karen að talsvert margir hafi skoðað skemmtanalífið á Torremolinos en aðrir hafi verið rólegri til að njóta daganna betur. "Á heildina litið erum við starfsfólkið ánægð með þau þó við vildum hafa þau aðeins hljóðlátari á kvöldin," segir Karen að lokum.