- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Berlínarferð nemenda MA gekk afar vel og að sögn fararstjóra voru þeir til fyrirmyndar og nýttu sér ítarlega ferðaáætlun sem þeir höfðu sjálfir gert þrátt fyrir ófyrirsjáanlega seinkun á komunni til borgarinnar sökum þoku yfir Schönenfeldflugvelli. Af þeim sökum varð fyrsti dagurinn ódrýgri til skoðunar en skyldi, en nóg var samt á dagskrá.
Hér er stuttur útdráttur úr ferðasögunni frá Eyrúnu Björgu Guðmundsdóttur:
Miðvikudagskvöldið 11. desember héldum við af stað í ferðina sem valfagið okkar þessa önnina hefur farið í að skipuleggja.
Það sem við, 26 nemendur úr 3. og 4. bekk í Menntaskólanum á Akureyri, áttum sameiginlegt var brennandi áhugi á menningarlífi og sögu Berlínar. Til þess að ná að gera allt sem okkur langaði að gera í Berlín voru dagarnir vel skipulagðir. Við fórum meðal annars á tvö söfn, The Story of Berlin og Berlin Unterwelten, en það fyrra fjallar um sögu borgarinnar og seinna fjallar um neðanjarðarbyrgi sem notuð voru í seinni heimstyrjöldinni. Við fórum að sjálfsögðu að Brandenburger Tor og minnisvarðanum um helförina ásamt því að skoða East Side Gallery og þinghúsið í Berlín. Dagarnir voru vel nýttir í að drekka í sig menningu Þjóðverja og smökkuðu allir curry Wurst og Pretzel og allt það sem þýskast er á jólamörkuðum sem prýddu öll stræti og torg. Það var eins og ganga inn í ævintýraheim þegar básarnir stóðu báðum megin við mann, ilmur af ristuðum hnetum, pylsum, Glühwein og sælgæti lá í loftinu og ljósadýrðin umvafði allt. Markaðirnir voru þó ekki allir eins, á einum stað voru Parísarhjól en öðrum skautasvell. Markaðirnir áttu það þó sameiginlegt að vera notalegur staður til þess að rölta um þrátt fyrir margan manninn.
Frítíminn sem gafst var einnig vel nýttur hvort sem það var á þráðlausa internetinu í innganginum á hostelinu, í búðum eða á jólamörkuðunum. Ég held að ég tali fyrir hönd allra þegar ég segi að þessi ferð hafi verið mjög vel heppnuð og allir sáttir þrátt fyrir tafir á flugvöllum og ónýtar innstungur.
Á myndinni eru Eyrún Björg og María Kristín Davíðsdóttir undir linditrjánum við Brandenborgahliðið.