Darri Rafn Söngkeppni 2010
Darri Rafn Söngkeppni 2010

Söngkeppni MA var í kvöld í troðfullri Kvosinni. 18 atriði kepptu til verðlauna og í fyrsta sæti höfnuðu Darri Rafn Hólmarsson og Rakel Sigurðardóttir með lagið Í minni mínu. Lagið var gert í samvinnu Darra Rafns og Stefáns Ernis Valmundarsonar. Með þeim léku 5 manna húshljómsveit og 5 manna strengjasveit. Auk þess að hljóta fyrsta sæti dómnefndar urðu þessir tónlistarmenn í sigursæti í símakosningu áhorfenda. Í minni mínu verður því framlag MA til Söngkeppni framhaldsskólanna í Íþróttahöllinni í apríl.

Í öðru sæti í keppninni lenti SLS-flokkurinn með bráðskemmtilega leikhúsútgáfu af laginu Lífið yrði dans sem kom fyrir margt löngu frá Ameríku og millilenti meðal annars hjá Ríó tríóinu. Með SLS léku húshljómsveitin og þriggja manna brasssveit.

Í þriðja sæti höfnuðu svo systkinin Katrín Þöll og Jóhann Axel Ingólfsson, en þau fluttu lagið Eitt spor enn afar vel. Og miklu fleiri gerðu vel í keppninni, en sætin voru bara þrjú og dómnefnd var vandi á höndum. Í henni voru Jana María Guðmundsdóttir leikkona, Þórarinn Stefánsson píanóleikari og Sverrir Páll menntaskólakennari.

Í frábærri hljómsveit hússins léku Aron Skúlason og Bjarki Guðmundsson á gítara, Tómas Leó Halldórsson á bassa, Tryggvi Þór Skarphéðinsson á trommur og píanóleikari og hljómsveitarstjóri var Þorvaldur Örn Davíðsson. Ýmsir fleiri góðir hljóðfæraleikarar komu einnig við sögu á þessu vel heppnaða tónlistarkvöldi í Kvosinni.

Myndina af Darra Rafni, rappara og textahöfundi, tók Jóhanna Stefánsdóttir. Nánari upplýsingar og myndir verður að finna á vef nemenda, muninn.is

.