- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Þann 11. september sl. héldu sprækir nemendur úr 1. TUV í dagsferð með kennurum sínum í náttúrulæsi. Lá leiðin yfir í Mývatnssveit. Lítið yndi var af veðri þennan dag. Það var norðan þræsingur og gekk á með hagléljum á milli þess sem sólin skein. Nemendur létu kuldann ekki spilla fyrir og skemmtu sér vel.
Allir fóru í heimsókn á Fuglasafn Sigurgeirs og hittu þar Stefaníu systur hans. Hún fræddi nemendur um tilurð safnsins og síðan mátti skoða það sem fyrir augu bar.
Töluvert var um útiveru og stoppuðu hóparnir við Skútustaðagíga, í Dimmuborgum, við Grjótagjá og á hverasvæðinu við Námafjall. Á hverjum stað var eitthvað áhugavert að sjá og voru kennarar ónískir á að ausa úr viskubrunnum sínum og gauka að nemendum skemmtilegum fróðleik. Stærsta áskorun nemendahópanna var að rölta upp á Hverfjall. Þaðan er gott útsýni, bæði niður í og yfir gosgíginn en einnig yfir Mývatn og sveitina.
Heppnaðist ferðin afar vel. Ætla má að flestir hafi verið þreyttir en ánægðir þegar rúturnar skiluðu nemendum og kennurum aftur til Akureyrar.
Fyrir hönd hópsins,
Einar Sigtryggsson, kennari í náttúrulæsi.