Páskafríið er ekki öllum frí - sumir nýta það vel í félagsstarfi og námstengdum atvikum.

4. bekkur X heldur í árlega vísindaferð til Lundúna og nálægra háskólaborga 28. mars og kemur heim 3. apríl. Að venju er Brynjólfur Eyjólfsson með í för og leiðir hópinn.

Á morgun, laugardaginn 19. mars, verður árleg forritunarkeppni framhaldsskólanna haldin. Í fyrsta sinn verður Háskólinn á Akureyri með útibú frá keppninni hér fyrir norðan og tvö lið verða frá MA. Annað liðið, sem heitir því virðulega nafni Níels Karlsson, er myndað af þremur piltum sem eru þeir Atli Fannar Franklín, Brynjar Ingimarsson og Jóhann Ólafur Sveinbjarnarson. Hitt liðið, MJC, er Alexander Jósep Blöndal einn og sjálfur. Hægt verður að fylgjast með keppninni gegnum Facebook síðu hennar og nánari upplýsingar er að finna á vef Háskólans í Reykjavík.

Konungur ljónanna

Leikfélag MA hefur öðru að sinna í páskaleyfinu en að liggja upp í loft, tyggja páskaegg eða renna sér á skíðum. Yfir standa æfingar á söngleik byggðum á kvikmyndinni Konungur ljónanna. Margir tugir nemenda taka þátt í sýningunni, við sviðs- og búninga- og leikmunagerð, förðun og hárgreiðslu, en auk leikara og söngvara eru á sviði kór, dansarar og hljóðmsveit. Þegar er hafin sala á aðgöngumiðum á fjórar sýnngar og miða má kaupa á tix.is - en allar upplýsingar um leikinn og sýnngarnar eru á vefnum www.konungurljonanna.com

Frumsýning er 1. apríl, önnur sýning 2. apríl og síðan 9. og 10. apríl.