- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Í morgun var þess minnst á Sal í Kvosinni að Dagur íslenskrar tungu er nú um helgina. 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar er að vísu ekki fyrr en á sunnudag, en þessara tímamót var minnst í dag.
Sigríður Steinbjörnsdóttir námsgreinarstjóri í íslensku ávarpaði gesti á Sal og minntist tímamótanna í fáum orðum. Íslenskukennarar kórónum prýddir kölluðu upp skólameistara og aðstoðarskólameistara og veittu þeim orður tungunnar í tilefni dagsins. Síðan var afmælissöngurinn sunginn Jónasi til heilla.
Ævar Þór Benediktsson var gestur dagsins. Ævar er stúdent frá MA, átti 10 ára stúdentsafmæli í vor, en hann er leikari og rithöfundur, svo eitthvað sé talið, og gaf nýverið út bókina Þín eigin þjóðsaga, lestrarbók sem byggð er á nokkrum þjóðsögum en lesandinn getur sjálfur ráðið því hvaða leið sagan fer.
Ævar Þór rædd i sérstaklega um sköpunina og það að virkja sköpunarkraftinn og nota sögurnar sem ævinlega eru að gerast allt í kringum okkur, skapa og skrifa og njóta þess að vinna með orð og hugmyndir. Hann lýsti því hvernig hann hefði frá bernsku notið þess að lesa sögur og skrifa og semja alls konar texta. Á árunum í MA hefði þetta haldið áfram og vaxið vegna þess að svo miklar og margar sögur voru að gerast allt í kring í nýju umhverfi með nýju fólki. Þetta hefði svo haldið áfram samhliða leiklistarnámi og starfi sem leikari og orðið meðal annars að smásagnasafni, bókum eins og um Ævar vísindamann og Þín eigin þjóðsaga og handrit að leikritum og kvikmyndum.
Ævar Þór sagðist ekki vita hvort það væri góðu vatni í Borgarfiðri, þar sem hann sleit barnsskónum. að þakka eða einhverju öðru að sköpunarþörfin sværi svona mikil, en yngri bróðir hans, Guðni Líndal Benediktsson hefði komið á eftir sér í MA og líka verið á bólakafi í sköpum og sögum og auk þess að vera orðinn kvikmyndaleikstjóri hefði hann nýverið gefið út sína fyrstu bók, Leitin að Blóðey, og fengið fyrir hana Íslensku barnabókaverðlaunin.
Góður rómur var gerður að máli Ævars og nokkrar spurningar lagðar fyrir hann að lokum og virtust allir skemmta sér vel.
Myndir tók Guðjón H. Hauksson