Lið Menntaskólans á Akureyri atti kappi við lið Fjölbrautskóla Suðurnesja í Gettu betur í sjónvarpi í kvöld. Með lokaspurningunni tókst MA að hafa sigur.

Tvö stig skildu liðin að eftir hraðaspurningar og MA hafði þar betur. Allvel gekk framan af í bjölluspurningum og MA sigldi örugglega fram úr Suðurnesjamönnum. Þá kom bakslag ug sunnanmenn unnu upp forskotið og komust loks tveimur stigum yfir. Í þríþrautinni, lokaspurningunni, sem gaf þrjú stig eða ekkert hófst upp heilmikið ferðalag MA-liðsins um heima teiknimynda og á endanum var ljóst að því hafði öllu verið svarað sem um átti að spyrja. Þannig tókst MA að vinna með einu stigi og dróst svo á móti hinum gamla skólanum, MR, í undanúrslit, og sú viðureign verður að viku liðinni.

Myndin er af Facebook skólafélagsins Hugins. þar er liðið ásamt gömlum félaga sem hefur verið þjálfari. Frá vinstri eru: Þorsteinn Kristjánsson, Jóhann Ólafur Sveinbjarnarson, Guðrún Hulda Ólafsdóttir og Jóhann Viðar Hjaltason.