- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Íslandsáfangarnir hafa verið talsvert áberandi í skólalífinu í MA í vetur. Ísland er hluti af nýrri námskrá í MA og er um helmingur af námi nemenda á fyrsta ári. Fimm fyrstu bekkir stunduðu nám í samfélagshluta Íslands nú á haustönn og fjórir í náttúruhlutanum. Áfangarnir eru kenndir aftur nú á vorönn, nemendur skipta um viðfangsefni og því eru þeir að kynnast nýjum kennurum og glíma við ný verkefni. Starfið gengur afar vel og nemendur sýna vaxandi færni og styrk við viðfangsefni sín.
Samfélagshluti Íslands byggir á félagsfræði, íslensku, sögu og upplýsingatækni en náttúruhlutinn á jarðfræði, líffræði, íslensku og upplýsingatækni. Greinarnar fléttast saman og mynda heildstæðan áfanga sem leggur megináherslu á virkni nemenda og þjálfun í vinnubrögðum. Samfélagshluti Íslands byggir á fimm þemum: skólanum, unglingum, byggðaþróun, glæp og refsingu auk stjórnmála. Í tengslum við byggða- og atvinnusögu verður farið í vettvangsferð til Siglufjarðar og verkefni unnin í tengslum við hana. Í náttúruhlutanum eru þemun landshlutarnir, landnámsöldin, hörmungar og nútíminn auk þess sem farið verður í vettvangsferð í Mývatnssveit og unnið að ýmsum verkefnum að henni lokinni. Verkefni innan hvers þema eru fjölbreytt og reyna á ólíka færniþætti.
Þessa dagana eru nemendur SAM hlutans að fara af stað í unglingaþemað, þar sem þeir munu meðal annars afla sér fjölþættra upplýsinga um menningu unglinga á 20. öld og gefa út tímarit sem endurspegla líf og störf unglinga á ýmsum tímum síðustu aldar. Nemendur NÁT hlutans hafa nýverið skilað fjölbreytum verkefnum um landshlutana og komið upplýsingum á framfæri með ólíkum hætti; til dæmis í formi myndbanda, ritgerða, fyrirlestra og tímarits. Þar er að hefjast glíman við landnámstímann og lífið í landinu á fystu öldum búsetu hér, og þar verður líka fengist við efnið á ólíkan hátt eftir bekkjum. Í verkefnunum reynir meðal annars á sköpun og virkni nemenda, hugmyndaauðgi, gagnaöflun og sjálfstæði.
Íslandsáfanginn hefur verið metinn jafnóðum og hafa nemendur haft mikið að segja um þróun hans. Kennarararnir eru 13 úr ýmsum greinum og hafa þeir lagt á sig mikla vinnu við þetta þróunarstarf sem hvergi er nærri lokið, enda er áfanginn stór breyting í nýrri námskrá MA sem verður innleidd næstu árin. Vaxandi áhuga hefur verið vart á þessu starfi frá öðrum skólum. Það hefur verið kynnt í nokkrum skólum og fleiri kynningar eru framundan.
Hér fylgja fáeinar myndir af krökkunum í NÁT-hluta Íslands við störf að Landshlutaverkefninu.