Nemendur í náttúrulæsi við nám í Mývatnssveit
Nemendur í náttúrulæsi við nám í Mývatnssveit

Íslandsáfanginn (menningarlæsi og náttúrulæsi) er nú kenndur í 5. skiptið. Honum fylgdi heilmikil breyting á námi og kennslu í fyrsta bekk, með samþættingu greina, mikilli samvinnu kennara, lengri námslotum og stærri áfanga. Í menningarlæsi eru meðal annars fléttaðar saman samfélagsgreinar, menning og saga auk íslensku og upplýsingatækni en í náttúrulæsi er meðal annars fengist við lifið og náttúruna, jarð- og landafræði auk íslensku og upplýsingatækni og í báðum greinum unnin fjölmörg og margvísleg verkefni þar sem megináhersla er lögð á hópastarf.

Kennarar áfangans hafa frá upphafi kynnt Íslandsáfangann víða á ráðstefnum og í skólum, auk þess sem kennarar úr öðrum skólum hafa heimsótt Menntaskólann til að kynna sér hann. Anna Sigríður Davíðsdóttir og Gunnhildur Ottósdóttir sögðu frá áfanganum á Ársþingi Samtaka áhugafólks um skólaþróun en það var haldið í samstarfi við Sprotasjóð mennta- og menningarmálaráðuneytisins í Lækjarskóla í Hafnarfirði 9.-10. nóvember . Þar voru kynnt  50 þróunarverkefni úr leik-, grunn- og framhaldsskólum. Skólinn hefur vegna Íslandsáfangans fengið styrk úr Sprotasjóði.

Starfsmannahópar úr mörgum skólum víða af landinu hafa komið í kynnisheimsóknir og hlýtt á kynningar og farið í tíma hjá nemendum. Það sem af er hausti hefur heimsótt okkur starfsfólk Garðaskóla í Garðabæ, kennarar á unglingastigi Valhúsaskóla og stjórnendur Framhaldsskólans við Ármúla og fyrir dyrum stendur fjarfundur með starfsfólki Menntaskólans á Ísafirði. Því miður hefur ekki verið hægt að verða við öllum óskum um heimsóknir í aðra skóla en það er vissulega gagnlegt að heimsækja aðra og taka á móti gestum, og það er gert sé þess nokkur kostur.