- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Í tilefni að Evrópska tungumáladeginum kom Jökull Bergmann fjallaleiðsögumaður frá Klængshóli í Skíðadal í heimsókn og spjallaði við nemendur og starfsmenn í Kvosinni á Hólum.
Stefið í máli Jökuls var hversu mikilvægur lykill góð tungumálakunnátta er að því að geta nýtt sér fjölbreytt tækifæri sem bjóðast vítt og breitt um heiminn. Hvert nýtt mál opni nýjar dyr. Hann benti á það hversu auðvelt væri fyrir okkur Íslendinga að læra flest Evrópumál vegna þess að þau byggjast meira og minna á sambærilegu kerfi. En að geta gert sig skiljanlegan á máli í framandi landi opnaði ákveðnar dyr. Jökull minnti líka á að málanám í skóla yrði sjaldnast meira en grunnur að því að læra málið. Það yrði ekki að alvöru fyrr en maður fengi tækifæri til að dveljast í landi þar sem málið er talað og nota það.
Jökull sýndi myndir af fjallaskíðaferðum hér á Íslandi og einnig í Japan og tengdi það meðal annars þeim vegg sem hann hefði rekist á þegar hann fór til Japans og skildi ekkert í máli þarlendra, hvorki töluðu né skrifuðu, og benti á hversu spennandi glíma gæti verið framundan að reyna að læra dálítið í því máli. Við þyrftum reyndar ekki að leita lengra en yfir til Grænlands til að finna mál sem við skiljum ekkert í. Hins vegar væri eins og málanám gengi hægar og verr eftir því sem maður eldist og þess vegna ættu nemendur að nýta tækifærið meðan þeir eru ungir og læra sem flest mál sem best.