- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Líf og fjör var á sal í löngu frímínútum og fram eftir morgni í dag þegar sunginn var jólasöngsalur á degi íslenskrar tónlistar. Söngsalur er jafnan ávísun á gleði og góða samverustund nemenda og starfsfólks. Engin breyting varð á því í dag, jafnvel var lagt ívið meira í umgjörðina að þessu sinni en gengur og gerist – þó ekki á kostnað innihaldsins.
Starfsfólk bakaði vöfflur í boði skólans, hitaði kakó og þeytti ósköpin öll af rjóma á vöfflurnar og út í kakóið. Veisluhöldin voru þó aðeins rétt að byrja því eftir veglegar veigarnar tóku nemendur við keflinu og stýrðu söngsamkomu í anda jólanna. Kór skólans söng undir stjórn Birnu Eyfjörð Þorsteinsdóttur kórstjóra og hljómsveit skipuð nemendum flutti nokkur vel valin jólalög. Að sjálfsögðu tók salurinn vel undir.
Já, óhætt er að segja að andi jólanna hafi svifið yfir Kvosinni í dag. Samvera, söngur og góðar veigar gerðu annars góðan dag í MA enn betri. Til að fullkomna augnablikið klæddust fjölmargir jólapeysum og annars konar hátíðarklæðnaði með tilheyrandi litadýrð. Vonandi gefur dagurinn góð fyrirheit fyrir það sem koma skal við annir desembermánaðar.
Nokkrar myndir af samkomunni má finna á fésbókarsíðu skólans.