- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Ragna Jónsdóttir hleypti heimdraganum í nóvember 1931, fjórtán ára gömul. Hún kom frá Norðfirði til Akureyrar til að hefja nám við MA. Ragna var fjögur ár á heimsvist skólans. Árið 1977 rifjaði hún upp árin í MA í sérstöku afmælisriti Munins í tilefni af 50 ára afmæli skólablaðsins. Við grípum hér niður í þeim hluta frásagnarinnar þar sem Ragna rifjar upp jólahald á vistinni á fjórða áratug 20. aldar.
-
Jólafríið stóð í rúman hálfan mánuð. Í þá daga voru samgöngur ekki eins líflegar og nú. Margir urðu því að sætta sig við að vera um kyrrt í vistinni, þar á meðal voru Austfirðingar sem ekki höfðu tæknilega möguleika til svona ferðalags. Á Þorláksmessu var jólahreingerning í fullum gangi. Við settum meira að segja rauðar perur í ljósastæðin til hátíðabrigða. Ein kennslustofan var dubbuð upp og notuð sem setustofa. Þar spiluðum við og tefldum, glímdum við heimatilbúnar krossgátur og sitthvað fleira. Í einu horninu stóð upptrekktur grammafónn. Þaðan hljómuðu nýjustu danslögin í sífellu. Mér fannst aðfangadagurinn alltaf sérstaklega lengi að líða. En loksins var mál til komið að hafa fataskipti og setjast til borðs. Jólamaturinn var gómsætur, ekki vantaði það. Við neyttum hans hægt og hljóðlega í bjarma kertaljósanna. Við sögðum fátt, urðum annað slagið svo undarlega fjarræn og umkomulaus á svipinn. Hugsuðum víst öll það sama, „bara að ég væri komin heim.“ Við sáum brátt að svo yrði ekki héðan af og tókum gleði okkar á ný. Eftir matinn greip okkur eirðarleysi, þótt við reyndum að láta ekki á því bera. Við heimsóttum hvert annað og gæddum okkur á sælgæti og kökum, sem við höfðum fengið að heiman, en okkur tókst ekki af eigin rammleik að skapa hina sönnu jólastemningu. Þetta skildu skólameistarahjónin og þess vegna höfðu þau þann sið að bjóða okkur til sín á aðfangadagskvöld. Sú stund verður mér ógleymanleg. Hjartahlýja þeirra, rausn og glaðværð leysti okkur úr læðingi, og við komumst öll í hið langþráða jólaskap. Við sungum jólasálma, þágum góðgerðir, hlógum, spjölluðum saman og önduðum að okkur ilmi jólanna á góðu heimili. Á miðnætti fórum við öll upp á Sal í jólaleiki, sem stóðu fram undir morgun. Þá höfðu nokkrir kennarar sem áttu heimangengt bæst í hópinn. Þeir tóku þátt í leikjunum af engu minna fjöri en við. Þannig liðu jólin við glaum og gleði, dans í vistinni og jólaboð í bænum. Það má með sanni segja að árin fimm í Menntaskólanum á Akureyri hafi verið lærdómsrík í þessa orðs fyllstu merkingu. Það var ekki lítils virði að hlíta leiðsögn góðra kennara, kynnast gáfuðum og skemmtilegum nemendum víðsvegar af landinu og eignast ævilanga vináttu margra þeirra.
Ragna Jónsdóttir.
Heimild: Muninn 50. árgangur, 1. tbl.