Jonni í Hamborg
Jonni í Hamborg

Þann 13. mars verða 90 ár liðin frá því að goðsögnin Jonni í Hamborg fæddist á Siglufirði, en hann var fyrsti konsertmeistari í MA.

Að þessu tilefni verður samkoma í Kvosinni í MA klukkan 17.00 fimmtudaginn 13. mars. Þar mun Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld fjalla um Jonna í Hamborg með aðstoð Agnars Más Magnússonar, eins færasta djasspíanista okkar daga. Brugðið verður upp myndum og lesið úr bréfum Jonna. Afmæliskaffi og kökur verða í boði MA.

Jóhannes V.G. Þorsteinsson fæddist á Siglufirði 13. mars 1924. Hann fluttist barn til Akureyrar og var alinn upp hjá móðursystur sinni og manni hennar, sem var kaupmaður í versluninni Hamborg. Af því var hann ævinlega kallaður Jonni í Hamborg.

Jonni tók ungur að læra á hljóðfæri og lék jafnt á píanó og trompett. Hann var undrabarn í tónlistinni og 16 ára gamall var hann farinn að spila á böllum og alls kyns samkomum. Hann heillaðist sérstaklega af djassi og spilaði hann hvar sem hann gat. Hann lauk ekki námi hér í skóla en fluttist til Reykjavíkur og  spilaði víða þar. Þegar hann var 22 ára hélt hann fyrstu djasstónleika á Íslandi með hljómsveit sem hann stofnaði með íslenskum tónlistarmönnum. Þeir urðu síðar í hópi þekktustu djasstónlistarmanna á landinu. Tónleikarnir voru í Gamla bíói 11. apríl 1946 og þóttu mikill tónlistarsigur.

Jonni var ekki bara djassisti. Söngkonan Elsa Sigfúss fékk hann til að fara með sér í tónleikaferð til Danmerkur strax eftir djasstónleikana í Gamla bíói. Þar hugðist Jonni dveljast og kynna sér bæði klassík og djass, en hann fórst af slysförum ytra 3. júlí 1946. Þar var bundinn endir á feril, sem virtist ætla að verða glæstur.