- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Föstudagurinn 24. maí var síðasti kennsludagur Valdimars Gunnarssonar og Þóris Haraldssonar, sem báðir hafa kennt við skólann í 40 ár. Þórir hóf störf haustið 1973 og hefur kennt líffræði, erfðafræði og skyldar náttúrufræðigreinar ævinlega síðan. Valdimar hefur verið við skólann frá hausti 1974 en hafði áður kennt eitt ár. Hann hefur aðallega kennt íslensku en einnig sögu auk þess að taka að sér stjórunarstörf, umsjón öldungadeildar um skeið og hann gegndi stöðu skólameistara eitt ár.
Á síðasta kennsludegi komu saman kennarar, starfsfólk og nokkrir fyrrverandi kennarar skólans, sem hafa snúið sér að öðru.
Fyrir hönd líffræðikennara flutti Kristín Sigfúsdóttir Þóri kveðju og færði honum að gjöf glæsilegan vasa, sem Jóhann Sigurjónsson hefur rennt í tré af sinni alkunnu snilld.
Sigríður Steinbjörnsdóttir kvaddi Valdimar fyrir hönd íslenskukennara og færði honum að gjöf svolitla bók, Hafðu það eins og þú vilt ef þú vilt það heldur, þar sem nokkrir samkennarar hans og vinir fyrr og síðar hafa skrifað nokkrar greinar af ýmsu tagi. Bókin er myndskreytt og auk þess fylgir henni diskur með um það bil 150 myndum. Sigríður, Stefán Þór og Sigurlaug Anna ritstýrðu en Sverrir Páll sá um myndir og gekk frá bókinni til prentunar.
Hér eru myndir af kennarastofunni teknar í þessari kveðjusamkomu. Þar gefur meðal annars að líta mynd af fimm gömlum bekkjarfélögum úr MA sem urðu síðar kennarar í MA. Allir Eyfirðingar ef Siglufjörður er talinn með þeirri sveit. Hófu allir Menntaskólanámið haustið 1964 og luku 1968 nema Valdimar sem las 5. bekk utan skóla og varð stúdent ári fyrr.
Valdimar Gunnarsson er lengst til vinstri á myndinni og Þórir Haraldsson lengst til hægri. Við hlið Valdimars er Stefán G. Jónsson eðlisfræðikennari, þá Gunnar Frímannsson félagsfræðikennari, sem sneri sér að öðrum störfum fyrir alllöngu, og því næst Sverrir Páll íslenskukennari. Stefán og Sverrir Páll halda áfram störfum við skólann.
Fleiri bekkjarfélagar þeirra hafa verið við kennslu í MA, nefna má Öldu Möller sem kenndi líffræði, Stefán Vilhjálmsson líffræði, Magnús Jónsson stærðfræði, Björn Jósef Arnviðarson lögfræðivalgrein og Þórhall Bragason sem leysti af tímabundið í kennslu.