BOX forkeppni 2012
BOX forkeppni 2012

Lið Menntaskólans á Akureyri er í úrslitum í Boxinu, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, sem fram fer í Háskólanum í Reykjavík 3. nóvember. Átta lið eru í úrslitakeppninni, þar á meðal báðir Akureyrarskólarnir.

Háskólinn í Reykjavík, Samtök Iðnaðarins og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa fyrir Boxinu. Markmiðið með keppninni er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði. Þrátt fyrir atvinnuleysi hér á landi er verulegur skortur á tæknimenntuðu fólki.

Í keppninni í HR á laugardaginn kemur glíma nemendur við þrautabraut þar sem reynir á hugvit, verklag og samvinnu, eins og fram kemur á vefsíðu keppninnar(http://boxid.ru.is/thrautirnar/). Í þessari úrslitakeppni eru auk Menntaskólans á Akureyri: Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Reykjavík, Verzlunarskóli Íslands, Tækniskólinn, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Iðnskólinn í Hafnarfirði.

Lið MA í keppninni skipa Eiríkur Árni Árnason, Erlingur Viðarsson, Garðar Darri Gunnarsson, Nebojsa Marijan og Örn Dúi Kristjánsson. Myndin var tekin í forkeppninni, þegar þeir unnu að þeirri þraut að byggja turn í hálffullum vatnsbala og höfðu til þess meðal annars tómar gosflöskur, síróp og pappír, en á toppi turnsins átti að hvíla ein kókosbolla :)