Kór Menntaskólans á Akureyri fór suður til Reykjavíkur föstudaginn 19. febrúar til að taka þátt í móti með öðrum framhaldsskólakórum á vegum Landssambands blandaðra kóra. Mótið var undir stjórn Bob Chilcott. Frásögnin hér er höfð eftir Freyju Steindórsdóttur, formanni kórsins.

Norðanmenn komu í bæinn rétt eftir kl 15, hentu töskum sínum inn í Casa Christie í MR þar sem gist var. Síðan var skundað á æfingu. Allar raddirnar æfðu saman til klukkan 21 og svo þurfti MA kórinn að koma sér aftur heim með strætó, og komust allr heilir í Casa Christie. Daginn eftir var æfing frá klukkan 10-17, en eftir það var frjáls tími til að fara í mat, heisækja ættingja o.s.frv.

Á sunnudaginn var kíkt í sund, enda eru engar sturtur í Casa Christie. Svo var generalprufa klukkan 12.15 og tónleikar kl 14. Allir kórarnir, um 230 söngvarar í heild, tóku saman tvö verk, A Little Jazz Mass og Five Days That Changed The World. Auk þess tóku kórarnir 1-2 lög hver. Við vorum 13 úr MA kórnum á mótinu og tókum lagið Viva La Vida á tónleikunum.

Eftir tónleikana skelltum við okkur niður í Hörpu og sungum nokkur friðarlög á 4. hæð fyrir Reykjavík Peace Festival, ásamt hundruðum annarra söngvara sem voru um allt húsið.

Þegar þessu var lokið var hringt og látið vita að rúta hópsins kæmist ekki norður vegna ófærðar, en mögulegt væri að fá far með 3. flokki KA í fjórhjólarútu, en þá yrði hópurinn að vera tilbúinn eftir 10 mínútur. Því var ekki annað í stöðunni eð að hlaupa úr Hörpu yfir í Casa Christie, pakka saman dótinu og drífa sig. Það reyndist tímafrekt að komast í þessa KA-rútu og þess vegna varð hópurinn að fara af stað svangur og nestislaus. Það var ekki fyrr en í Staðarskála sem hægt var að fá sér eitthvað í gogginn. Það bjargaði lífi flestra að kórnum hafði áskotnast kassi af Hleðslu frá MS, en heim var ekki komið fyrr en rúmlega hálfeitt um nóttina.

Æfingar kórsins eru á Sal í Gamla skóla á mánudögum frá 16.15-16.45 og fimmudögum frá 16.15-17.15.

Í Hörpu