- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Sverrir Páll Erlendsson, fyrrum íslenskukennari við skólann og MA-ingur mikill, hefur tekið saman pistil um hlut stúlkna í stjórn skólafélagsins Hugins í gegnum tíðina. Hann segir sjálfur: ,,Að gamni mínu hef ég sérstaklega fylgst með framgangi stelpna í strákavíginu, sem stjórn félagsins var lengst af. Meðal annars kom þetta út úr því":
Á dögunum var stjórnarkjör í Hugin, skólafélagi MA. Krista Sól Guðjónsdóttir var kosin forseti félagsins. Hún er sautjánda stúlkan til að standa í broddi fylkingar – og það vill svo skemmtilega til að nú í vor eru nákvæmlega 40 ár síðan stúlka varð fyrst formaður Hugins. Það var Þuríður Sólveig Árnadóttir, sjúkraþjálfari, sem stýrði félaginu veturinn 1983-84. Þá vildi einnig svo skemmtilega til að í stjórn Þuríðar voru þrjár stúlkur, strákarnir bara tveir. Til þess tíma hafði stöku sinnum verið ein stúlka í stjórn, en ekki fleiri, en þarna urðu þær í meirihluta. Í stjórn Kristu Sólar eru kynjahlutföllin jöfn.
Sé litið yfir stjórnir Hugins, sem fyrst var málfundafélag en varð síðan skólafélag og regnhlíf yfir mörgum undirfélögum, kemur í ljós að strákavígið var fyrst rofið þegar Iðunn Steinsdóttir var kosin í stjórn. Það var veturinn 1957-58. Níu árum síðar, veturinn 1966-67, var aftur stúlka í stjórninni, það var systir Iðunnar, Kristín Steinsdóttir, báðar urðu þær þekktir rithöfundar, en það er önnur saga. Eftir þetta uppbrot systranna var stöku sinnum ein stúlka í stjórn með strákunum, allt þar til Þuríður varð formaður. Hún braut ísinn, og frá því hún var formaður Hugins hafa ævinlega verið tvær stúlkur eða fleiri í stjórn félagsins. Hér sjást allar sautján stúlkurnar sem hafa verið formenn/forsetar Hugins:
1. 1983-1984 Þuríður Sólveig Árnadóttir
2. 1986-1987 Þóra Björg Magnúsdóttir
3. 1987-1988 Sigrún Kristjánsdóttir
4. 1997-1998 Þóra Björg Sigurðrdóttir
5. 1999-2000 Steinunn Vala Sigfúsdóttir
6. 2000-2001 Kolbrún Gunnarsdóttir
7. 2002-2003 Borgný Skúladóttir
8. 2003-2004 Hulda Hallgrímsdóttir
9. 2004-2005 Bergþóra Benediktsdóttir
10. 2005-2006 Edda Hermannsdóttir
11. 2006-2007 Kristín Helga Schiöth
12. 2008-2009 Anna Elvira Herrera Þórisdóttir
13. 2012-2013 Alda Karen Ólafsdóttir Hjaltalín
14. 2018-2019 Kolbrún Ósk Jóhannsdóttir
15. 2020-2021 Ína Soffía Hólmgrímsdóttir
16. 2021-2022 Elísa Þóreyjardóttir
17. 2023-2024 Krista Sól Guðjónsdóttir
• Aðeins einu sinni hefur aðeins 1 strákur verið í stjórn, með 6 stúlkum.
• Aldrei hefur verið hrein kvennastjórn.
• Stúlkur hafa verið fleiri en strákar í stjórn í 21 ár frá því Þuríður varð formaður, strákar fleiri í 16 ár og jafnt í stjórn þrisvar.
• Frá 1985 hafa alltaf verið tvær eða fleiri stúlkur í stjórninni.
• Áratuginn 1999-2009 voru stúlkur formenn í 8 ár en strákar í 2 ár.
Við þökkum Sverri Páli kærlega fyrir þessa fróðlegu samantekt.