Dimissio 2010
Dimissio 2010

Dimissio, burtsending stúdentsefnanna, var í dag. Eftir að fjórðubekkingar höfðu lokið söng á Sal báru fyrstubekkingar þá út úr húsi og þar tók við kveðjuþrautabraut. Þar voru þeir leiddir milli alls kyns tækja og tóla með bundið fyrir augu og þessu öllu fylgdi dálítið vatnsbað.

Að þessu loknu klæddu stúdentefni sig í búninga og fengu grillað í gogginn hjá kokkum Mötuneytis MA og það voru teknar myndir af bekkjunum. Að því loknu voru allmargir kennarar og starfsmenn kvaddir í Kvosinni. Þá var komið að ferðum bekkjanna á traktorsvögum um bæinn til að kveðja enn fleiri kennara og þetta tók lungann úr deginum.

Í kvöld var svo kaffisamsæti í boði Hugins, skólafélags MA þar sem saman var kominn allur þessi rúmlega 180 manna hópur verðandi stúdenta, sem verður langstærsti stúdentahópur MA frá upphafi, og kennara. Þar voru kveðjur, söngur og myndasýningar. Svo taka síðustu prófin við strax að lokinni hvítasunnu.

.