Skólatorg að vetri
Skólatorg að vetri

Þriðjudaginn 6. mars verður kynning á hraðlínu, almennri braut fyrir dugandi nemendur sem kjósa að koma rakleitt í menntaskóla að loknu prófi úr 9. bekk grunnskóla. Kynningin er í stofu M9 í kjallara Möðruvalla og hefst klukkan 17.00.

Almenn bóknámsbraut, hraðlína

Menntaskólinn hóf kennslu á þessari braut haustið 2005 en þá fór af stað þróunarverkefni sem miðar að því að koma til móts við nemendur sem hafa áhuga og getu til að flýta námi sínu til stúdentsprófs um eitt ár. Á brautinni er áhersla lögð á fjölbreytta kennsluhætti og námsmat og reynt er eftir megni að miða námið að þörfum hvers og eins. Hraðlínan hefur gengið mjög vel, nemendur hafa aðlagast vel í skólanum og náð afbragðs árangri.

Á almennri námsbraut, hraðlínu,  taka nemendur sömu áfanga og kenndir eru á fyrsta ári í MA, auk þess að ljúka viðfangsefnum 10. bekkjar. Næsta vetur verður kennt í einum litlum hópi, 15-20 nemendum. Áhersla verður lögð á góða samvinnu við foreldra, öfluga umsjón með nemendum, góð vinnubrögð og að tengja saman námsefni grunn- og framhaldsskóla. Að loknu þessu ári geta nemendur sest í 2. bekk í MA.

Við inntöku verður litið til þriggja þátta; skólaeinkunna, umsagnar frá grunnskóla og viðtala við nemendur og foreldra.

Þessi námsleið gæti hentað vel þeim nemendum sem hafa áhuga á bóklegu námi og eru vel í stakk búnir til að hefja nám í fyrstu áföngum framhaldsskóla.

Hér með er boðað til kynningarfundar um námið þriðjudaginn 6. mars kl. 17.00. Fundurinn verður haldinn í stofu M) í kjallara Möðruvalla í Menntaskólanum á Akureyri. Gengið inn frá Þórunnarstræti.

Nemendum og forráðamönnum þeirra er velkomið að leita frekari upplýsinga hjá stjórnendum skólans og námsráðgjöfum í síma 455-1555 eða á netfangið alma@ma.is. Einnig er nánari upplýsingar að finna á vef skólans www.ma.is . Umsóknarfrestur um námið er til föstudagsins 25. maí, umsóknareyðublöð verður hægt að nálgast á vef skólans.