Inga Steinlaug Hauksdóttir
Inga Steinlaug Hauksdóttir

Í gær var í Kvosinni stutt kynning á starfsemi Blóðbankans á Akureyri. Inga Steinlaug Hauksdóttir hjúkrunarfræðingur hjá blóðsöfnun Blóðbankans á Akureyri gerði grein fyrir starfsemi bankans. Fram kom að ævinlega væri þörf fyrir blóð og bankanum væri líka nauðsynlegt að hafa traust og gott lið blóðgjafa til að geta viðhaldið stafsemi sinni. Þá væri ekki síður mikilvægt að fá nýja liðsmenn til að bankinn geti svarað vaxandi þörf fyrir blóð og blóðefni. Til þess að geta orðið liðsmaður þarf að vera orðinn 18 ára og heilbrigður og það á jafnt við um konur og karla.

Það er stutt fyrir fólk úr MA að skjótast þvert yfir Lystigarðinn og niður í kjallara Sjúkrahússins á Akureyri þar sem Blóðbankinn er til húsa og þar er opið frá 8.15 á morgnana fram til klukkan 14.00 frá mánudögum fram á fimmtudaga. Auk þess hefur Blóðbíllinn komið við undanfarin haust og verið hér í dagpart.

Öllum er hollt að gefa blóð sem hafa góða heilsu og blóðgjöfin hefur lítil áhrif á heilbrigt fólk. Rétt er að fara sér ekki óðslega sama dag og gefið er en að morgni eru blóðgjafar sem nýir. Vel er tekið á móti þeim sem koma í bankann, hvort sem er til að gefa blóð eða láta mæla það og prófa til að athuga hvort maður geti gengið í lið blóðgjafa. Og það er ekkert vafamál að blóðgjöf getur bjargað lífi.

Blóðbanki