1B í pizzuveislu 3. nóv. 2009
1B í pizzuveislu 3. nóv. 2009

Ekki er farið með nemendur fyrsta bekkjar í skálaferð að Hólavatni eins og undanfarin ár. Það er vegna sparnaðar og samdráttar í rekstrarkostnaði skólans. Þess í stað er bryddað upp á ýmsu til að fá nýnemana til að kynnast og samlagast.

Nemendur hafa í samráði við umsjónarkennara sína skipulagt uppbrot í kennslu, fengið hluta úr skóladegi til að gera eitt og annað saman. Þar hefur verið bryddað upp á ýmsu og aðalhugmyndin hefur verið að gera eitthvað skemmtilegt saman án þess að það kosti mjög mikið.

Sem dæmi má nefna að 1. bekkur F fór heim til umsjónarkennara síns og þar sameinaðist bekkurinn um að baka pizzur og neyta þeirra síðan og njóta samverunnar í hlýlegu umhverfi. Heldur var kaldara framan af hjá 1. bekk B sem fór á skauta í Skautahöllinni, kom svo við í Brynju og fékk sér ís í nepjunni, en fór að lokum upp í skóla, hellti sér á kaf í gestaþrautir og borðaði pizzur sem pantaðar höfðu verið.

Einn bekkurinn, 1. bekkur A, ákvað hins vegar að fara í skálaferð vegna þess að flest sem krakkana langaði til að gera var svo dýrt að skálaferðin var peninganna virði, jafnvel þótt krakkarnir þyrftu sjálfir að borga hana að fullu.

Myndirnar hér tók Sverrir Páll í skautaferð og gestaþrautum 1B.

.