Lærdómssamfélagið, samstarf og samræða allra skólastiga, er ráðstefna um menntavísindi sem verður haldin föstudaginn 4. október næstkomandi í Íþróttahöllinni, Brekkuskóla og Menntaskólanum á Akureyri. Ráðstefnan sjálf hefst að lokinni skráningu klukkan 9.00 og lýkur klukkan 15.30. Kennsla fellur niður í skólunum þennan dag.

Tvö meginerindi verða flutt á ráðstefnunni: Prófessor Louise Stoll PhD. FRSA flytur erindið Professional learning society og Birna Svanbjörnsdóttir menntunarfræðingur og doktorsnemi kallar erindi sitt Lærdómssamfélagið. Að loknu hádegishléi verða fjölmargar málstofur í Brekkuskóla og MA.

Kennarar úr MA standa fyrir fjórum málstofum á ráðstefnunni:

  • Hafdís Inga Haraldsdóttir og Selma Hauksdóttir fjalla um breytt fyrirkomulag dönskukennslu í MA,
  • Arnar Már Arngrímsson og Sverrir Páll Erlendsson ræða um Íslandsáfangana, menningar- og náttúrulæsi,
  • Guðjón Andri Gylfason gerir grein fyrir speglaðri kennslu og reynslu af henni og
  • Geir Hólmarsson segir frá starfendarannsókn nemenda í félagsfræði