Egill Rúnar Halldórsson
Nemendur og starfsmenn MA deila upplifunum sínum af námi og kennslu í samkomubanni með lesendum ma.is.
Ég heiti Egill Rúnar Halldórsson og er ég nemandi í 3.G.
Ég bý í Fljótunum í Skagafirðinum og er ég og mín fjölskylda með fjárbúskap. Maður verður að sinna þeirri vinnu á einn eða annan hátt og í þokkabót á maður sjö alsystkini sem eru öll heima vegna samkomubanns. Svo mín reynsla er að mér leiðist ekkert í þessu samkomubanni en á sama tíma er maður farinn að sakna vina sinna í MA. Mínir kennarar eru búnir að standa sig með prýði í því að koma heimanámi á framfæri og öðru því skylt. Þeir svara öllum póstum og hika ekki við það að hjálpa manni ef þess þarf og á sama tíma talar maður við bekkjarfélaga sína til þess að hjálpa manni og fleira.
Það eru vissulega margir kostir og gallar við þetta nám. Frá mínum bæjardyrum séð þá eru kostirnir við þetta að maður fær alltaf átta tíma svefn. Á sama tíma er gallinn sá að stundum þarf maður að þvinga sig áfram til þess að læra, því núna eru engir kennarar á staðnum nema á rafrænan hátt. Allavega er mín reynsla sú að þetta er allt að ganga upp og allt að skila sínu. En þetta er vissulega furðulegt því maður er ekkert vanur svona námsaðferðum. Stundum veit maður aldrei hvað lífið ber í skauti sér og þá verður maður að vera viðbúinn því versta.