Leikfélag MA hefur kynnt viðfangsefni vetrarins. Aðalleiksýningin, leikrit eftir skáldsögunni LoveStar, verður sett á svið í Hofi.

Fréttatilkynning þessa efnis birtist á síðu Leikfélags MA og er á þessa leið:

LOVESTAR!

Á komandi vorönn (2018) ætlum við í LMA að setja upp Lovestar!

Höfundur verksins er Andri Snær Magnason og kom bókin út árið 2002. Verkið verður sett upp í leikstjórn Einars Aðalsteinssonar og Ívan Árni Róbertsson, fyrrverandi nemandi Menntaskólans, verður aðstoðarleikstjóri.

Sem fyrr fara nemendur við skólann með störf tónlistarstjóra og danshöfunda en það verða þær Una Haraldsdóttir og Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir sem sjá um tónlistina og Sylvía Siv Gunnarsdóttir og Petra Reykjalín sjá um dansinn.

Lovestar framtíðarástarsaga þar sem allt er markaðssett, dauðinn, ástin, líkaminn og náttúran. Þetta er leikrit sem að hefur bara verið sett upp einu sinni og við erum því að fara svolítið ótroðnar slóðir og að prófa eitthvað nýtt! Okkar plan er að bæta inn lögum og fleira í þá leikgerð sem Andri Snær og Bergur Þór Ingólfsson gerðu með góðfúslegu leyfi frá þeim.

Prufur í hlutverk verða vikuna 23-27. október og svo verða viðtöl fyrir hin ýmsu teymi í vikunni á eftir. Við hlökkum til að sjá hópinn myndast og allt fara á fullt á ný!

Frumsýning verður 9.mars sem er fyrr en vanalega hjá LMA og verður sýningin sett upp í Hofi, en það er einnig ný áskorun sem við hlökkum mikið til að fást við!

Við erum mjög spennt að takast á við þetta krefjandi, fjöruga og spennandi verkefni með nemendum MA og öllum þeim sem koma að verkinu og hvetjum alla nemendur til að mæta í prufur því þetta er ótrúlega skemmtilegt!