- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Fréttatilkynning frá Menningarfélagi Akureyrar:
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (LMA) sýnir næsta leikverk á fjölum Hamraborgar í Hofi. Menningarfélag Akureyrar og Leikfélag Menntaskólans á Akureyri skrifuðu á dögunum undir samning þess efnis. Það gafst tilvalið tækifæri núna á næsta starfsári Menningarfélagsins að bjóða LMA að vera með æfingaaðstöðu og sýningar í Hofi þar sem uppfærslur Leikfélags Akureyrar og gestasýningar þess verða allar í Samkomuhúsinu í ár.
Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélagsins fagnar þessum samningi og segir „við hér hjá Menningarfélaginu höfum átt gott samstarf við LMA-inga þar sem þau settu jú upp sýningu sína Anný í Samkomuhúsinu nú í vor við góðan orðstír og áður var samstarf LMA mikið við LA. Í Hofi munu þau læra á nýtt hús, spreyta sig á stærra rými og leika fyrir fleiri áhorfendur í einu – það verður skemmtileg áskorun fyrir þau sem kallar á hugvitssemi, frjótt ímyndunarafl, lausnamiðaða hugsun og skemmtilegt samstarf og samvinnu við starfsfólk Menningarfélagsins. Við hlökkum mikið til að fá þessi hæfileikaríku ungmenni í hús sem mörg hver eru að stíga sín fyrstu skref með leiklistargyðjunni utan sviðs sem innan“.
Við í stjórn LMA fögnum nýjum samningi við Menningarfélagið segir Soffía Stephensen formaður LMA. „ Þetta er skemmtileg breyting fyrir félagið en síðustu tvö ár hefur LMA sett sýningar sínar upp í Samkomuhúsinu og gengið vel. Það verður gaman að takast á við nýjar áskoranir og það eru spennandi tímar framundan hjá LMA. Við erum afar þakklát fyrir það tækifæri og traust sem við höfum fengið."
Upplýst verður á haustdögum hvaða verk verður sett upp. Frumsýnt verður 9. Mars í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi.