23.05.2019
Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir
Leyndardómar svarthola
Stjörnu-Odda félagið, sem er félagsskapur um stjörnuskoðun og stjörnuvísindi á Norðurlandi, hefur fengið Kára Helgason stjarneðlisfræðing við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, til að koma og flytja afskaplega áhugavert erindi um leyndardóma svarthola. Erindið verður haldið í Menntaskólanum á Akureyri sunnudaginn 26. maí kl. 15:00.
Á
Facebook-síðu viðburðarins kemur eftirfarandi fram: Svarthol eru einhver mestu furðuverk sem fyrirfinnast í náttúrunni. Tilvist fyrirbæris sem er svo þétt að ekkert getur sloppið frá því, ekki einu sinni ljós, var endanlega staðfest nýverið þegar Sjóndeildarsjónaukinn (Event Horizon Telescope) opinberaði fyrstu ljósmyndina sem náðst hefur af svartholi. Í þessari kynningu mun hann fjalla um risasvartholið í miðju M87 vetrarbrautarinnar og hvernig EHT samstarfið fór að því að setja heimsmet í greinigæðum á ljósmynd. Hann mun svo útskýra hvernig svarthol myndast og benda á þær óleystu ráðgátur sem vísindamenn standa frammi fyrir.
Að loknu erindi Kára verður haldinn aðalfundur í Stjörnu-Odda félaginu og nýir félagar eru velkomnir.
Þegar aðalfundarstörfum er lokið mun Kári halda annað erindi fyrir félagsmenn Stjörnu-Odda félagsins, sem ber titilinn "Saga stjörnumyndunar skrásett í bakgrunnsljós alheimsins"
Ágrip: Eftir að fyrstu sólstjörnurnar hófu að myndast byrjaði ljós að safnast fyrir í myrkum alheimi. Bakgrunnsljós alheimsins er uppsöfnuð birta allra þeirra stjarna sem skinið hafa í alheimssögunni og hefur því að geyma mikilvægar upplýsingar um myndun og þróun vetrarbrauta frá upphafi til dagsins í dag. Ég mun fjalla um nýlega rannsókn mína á bakgrunnsljósinu sem mælt var af mikilli nákvæmni með hjálp 740 risasvarthola í órafjarlægð. Útfrá þessum mælingum tókst okkur að endurskapa sögu stjörnumyndunar yfir tímabil sem nær yfir 90% af sögu alheimsins.