- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Hefð er fyrir því að halda Íþróttadag í MA þar sem nemendur og starfsfólk etja kappi í hinum ýmsu íþróttagreinum. Frá klukkan 10:00 - 12:00 í dag var hefðbundin kennsla felld niður og skundað upp í Íþróttahöll þar sem geysiöflug lið tókust á. Einar Sigtryggsson, fréttafulltrúi starfsfólks, var á staðnum:
Íþróttadagurinn var í Höllinni í dag og var hart tekist á í fimm íþróttagreinum. Fjögur lið mættu til leiks, eitt úr hverjum bekk og svo stjörnum prýtt lið 13 starfsmanna MA.
Í byrjun var keppt í þremur greinum í einu á þremur völlum. Lið sem sigraði sinn leik fór í úrslitaleik gegn öðru sigurliði. Var þetta fyrirkomulag haft í öllum greinum, enda einfalt þegar fjögur lið eru að keppa. Okkar fólk byrjaði á að vinna 2. bekk í bandíí 2-1, þar sem Brynja skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Síðan þurfti að skipta liði og spila í tveimur greinum í einu. Blakliðið tapaði nokkuð örugglega fyrir 1. bekk en á meðan vann körfuboltaliðið 3. bekkinga 24-0.
Þetta þýddi að okkar fólk þurfti að spila tvo úrslitaleiki á sama tíma og enn var hópnum skipt í tvennt. Körfuboltaliðið var með pálmann í höndunum gegn 2. bekk fram á lokasekúndunum en þá kom ótrúleg sigurkarfa og tap var óumflúið. Á meðan var bandíliðið í miklum hasar gegn 1. bekk og fór sá leikur illa, eða 4:0.
Þá var komið að reiptogi og þar komust hetjurnar okkar enn og aftur í úrslitin. Fyrst voru 1. bekkingar lagðir en svo vantaði herslumuninn í úrslitarimmunni gegn 3. bekk.
Var nú sama fólkið búið að leggja líf og limi í öll þessi átök og ekki var allt búið enn. Einhverjir heltust úr lestinni og þegar kom að fótboltaleiknum í lokin var hópurinn varla svipur hjá sjón og nokkrir nærri örmögnun. Átta manns voru eftir í lokin til að taka slaginn.
Spilað var gegn 3. bekk og var allt lagt undir. Lengi vel hafði lið okkar í fullu tré við landsliðsfólk nemenda. Bjarni og Þórhildur sáu um sóknarleikinn en hinir voru mest í vörn með Krissa Maguire í banastuði. Krissi brá sér svo fram og skoraði eina mark kennara í 3-1 tapi.
Það var ánægjulegt að sjá vaska sveit starfsfólks ganga til leiks með bros á vör. Þrátt fyrir fámenni, álag og afföll þá geta liðsmenn borið höfuðið hátt. Liðið náði 2. sæti í þremur greinum og 3. sæti í hinum tveimur. Þetta var lið sem í flestum leikjum var án skiptimanna.
Ljóst er að nemendur höfðu yfirhöndina að mörgu leyti, þeir höfðu skiptifólk á bekkjum auk öflugs stuðnings úr stúkunni og aragrúa af keppendum til að dreifa í greinarnar fjórar. Engu að síður gengur starfsfólk stolt frá borði og þakkar fyrir daginn!