- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Frá því að nýja námskráin var tekin í notkun hafa nemendur á 3. ári á tungumálalínu tekið áfanga sem fjallar um sögu og menningu Evrópulanda. Undanfarin ár hefur sú hefð skapast að bjóða Evrópubúum í heimsókn og sett upp nokkurs konar hraðstefnumót. Íslensku nemendurnir velja sér efni sem þeir vilja kynna sér, undirbúa spurningar og fara svo á stutt stefnumót með útlensku gestunum og spjalla um efnið sem þeir völdu. Eftir stutta stund er bjöllu hringt og þá fara nemendurnir á næsta borð og hefja aftur spjall við nýjan viðmælanda frá öðru landi og svo koll af kolli. Nemendanna okkar bíður svo að gera verkefni þar sem þeir bera saman svörin sem þeir fengu frá ólíkum löndum. Í gær var þessi stóri dagur sem alltaf er beðið með nokkurri eftirvæntingu.
Gestirnir sem við bjóðum hafa flestir komið í gegnum HA þar sem þeir stunda skiptinám en yfirleitt eru fengnir fleiri og þá fólk sem hefur sest hér að í lengri eða skemmri tíma og er í vinnu. Við fengum til okkar 25 gesti frá 14 Evrópulöndum, þar af sex Þjóðverja, auk þess sem tveir eða fleiri komu frá Frakklandi, Finnlandi og Tékklandi. Nemendurnir eru hvattir til að nota þau tungumál sem þeir hafa á valdi sínu og mátti því, auk ensku, heyra sænsku, ítölsku og þýsku berast um á efri hæð Gamla skóla.
Hraðstefnumótinu lýkur alltaf með smá kaffiboði, sem í gær var óvenju glæsilegt því nemendurnir í 3.A ákváðu að nota tækifærið og hafa kökudag og komu því með glæsilegar veitingar. Í nóvember höfum við endurgoldið þennan greiða með því að bjóða útlensku gestum okkar á kvöldvöku þar sem nemendur okkar kynna íslenska menningu.