Reynsluboltar hjá Stefáni
Reynsluboltar hjá Stefáni

Í morgun fóru fram Litlu Ólympíuleikarnir árið 2010, en nemendur 4. bekkjar U skoruðu á kennara til nokkurra útileikja. Veður var fagurt, sólríkt og gott en dálítið kalt í skugga. Keppnin fór fram á túnbala norðan Hóla, sem stundum er kallað Oddgeirstún en nemendur eru farnir að kalla Stefánslund. Sá ágæti lundur hvarf að vísu að mestu undir nýja heimavistarhúsið, en það er önnur saga.

Leikarnir fóru vel fram og glaðlega. Að þeim loknum var svolítill kappleikur milli gömlu og nýju stjórnar Hugins og það endaði í talsverðum vatnsgangi. Að þessu öllu loknu var pylsuveisla í boði stjórnar Hugins.

Áhorfendur voru því miður óvenjufáir, en fólk dreif nokkuð að þegar ilmurinn af grilluðum pylsum tók að berast um hús og umhverfi. Þeir fáu sem sáu höfðu nokkurt gaman af leikunum.

.