- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Senn líður að frumsýningu Leikfélags Menntaskólans á Akureyri á leikritinu Inn í skóginn (Into the Woods). Leikritið, sem var á sínum tíma tilnefnt til tíu Tony-verðlauna, verður frumsýnt föstudaginn 6. mars í Menningarhúsinu Hofi. Leikstjóri er Vala Fannell.
Á fésbókarsíðu LMA segir að verkið taki fyrir „þekktar persónur úr Grimms ævintýrum eins og Öskubusku og Rauðhettu og kannar siðferði sagna þessa í sambandi við daglegt líf okkar.“
Enn fremur segir um sýninguna að hún sé „nokkurs konar ádeila sem er lögð fram gegn þeirri hugmynd að allir lifi alltaf hamingjusamir til æviloka. Inn í skóginn sýnir dimmari og drungalegri hlið ævintýranna og seinni hluti sýningarinnar getur vakið óhug á meðal barna af ungum aldri.“
Margir koma að sýningunni. Auk þeirra sem sjá um leik og tónlist á sviðinu er fjöldi nemenda sem vinnur á bak við tjöldin. Huga þarf að leikmynd, markaðsmálum o.s.frv. Á fyrrnefndri síðu LMA er hægt að horfa á stutt kynningarmyndbönd um ólík hlutverk þátttakenda í sýningunni. Þar má einnig nálgast frekari upplýsingar svo sem hvenær sýningar fara fram og hvar hægt er að tryggja sér miða.