LMA auglýsir prufur fyrir söngleikinn
LMA auglýsir prufur fyrir söngleikinn

Leikfélag Menntaskólans, LMA, mun setja upp söngleikinn Galdrakarlinn í Oz í leikstjórn Egils Andrasonar. Mikil fagnaðarlæti brutust út í Kvosinni í löngu frímínútum í dag þegar þetta var tilkynnt og ljóst að ævintýrið um Dórótheu og félaga er sívinsælt og löngu orðið klassískt.

Fellibylur feykir húsi Dórótheu til framandi töfralands og hún, ásamt hundinum Tótó, vill komast aftur heim. Hún ákveður að leita hjálpar hjá Galdrakarlinum í Oz og á leiðinni til hans hittir hún heilalausu Fuglahræðuna, hjartalausa Pjáturkarlinn og huglausa Ljónið. Það eru því fleiri sem þurfa á hjálp að halda og saman halda vinirnir í mikla ævintýraferð. Leikgerðin er byggð á barnabók L. Frank Baum sem kom út um aldamótin 1900 og vinsæl kvikmynd var gerð eftir bókinni árið 1939 þar sem engin önnur en Judy Garland fór með hlutverk Dórótheu.

Opið er fyrir umsóknir í prufur hjá LMA sem verða nú í september. Þann 13. verða dansprufur, teymisprufur 17.-19. og að lokum leikprufur 19.-22. Æfingar hefjast svo að fullu. Verkið verður frumsýnt í Hofi þann 14. mars og til mikils að vænta, enda sló söngleikurinn Gosi rækilega í gegn síðasta vor.