- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
LMA, Leikfélag Menntaskólans á Akureyri, frumsýnir 23. apríl söngleikinn Grænjaxla, sem Pétur Gunnarsson og Spilverk þjóðanna gerðu fyrir margt löngu og vinsæll var á fjölum Þjóðleikhússins. Leikstjóri er Bryndís Ásmundsdóttir, henni til aðstoðar er Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikmynd gerir R. Mekkín Ragnarsdóttir og tónlistarstjóri er Þorvaldur Örn Davíðsson.
Í kynningu á sýningunni segir LMA meðal annars: Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (LMA) er eitt virkasta félag skólans og fagnar í ár aldarafmæli sínu. Árlega setur LMA upp metnaðarfulla sýningu og að þessu sinni urðu Grænjaxlar fyrir valinu.
Í Grænjöxlum fylgjumst við með fjórum saklausum krökkum í leit að kreppunni og tilgangi lífsins. Þessi litríka þroskasaga varpar ljósi á samtíma okkar, hún er full af hnífbeittum ádeilum og súrum húmor sem allir geta hlegið að.
Grænjaxlar er íslenskur söngleikur frá gullárinu 1977. Höfundur er Pétur Gunnarsson en verkið hefur verið lítillega staðfært af leikstjóra og leikhóp. Tónlistin í verkinu er eftir Spilverk þjóðanna og hefur verið útfærð af Þorvaldi Erni Davíðssyni, tónlistarstjóra. Hljómsveit LMA tekur virkan þátt í sýningunni, hún er skipuð nemendum úr MA og Tónlistarskóla Akureyrar.
Í haust var komið á sambandi LMA og Leikfélags Akureyrar. Það samband stendur á gömlum merg þótt það hafi legið niðri um fáeinna ára skeið. Þetta samband hefur gengið vel og Grænjaxlar verða sýndir í Rýminu, húsnæði LA, þar sem áður voru Dynheimar. Miða er hægt að kaupa í miðasölu LA, sími 4600200, á miðasöluvef LA á leikfelag.is og á midi.is.
Frumsýning verður sem fyrr segir 23. apríl og sýningar fyrirhugaðar næstu daga þar á eftir.