Sýningar Leikfélags MA á Konungi ljónanna hafa gengið afar vel og verið uppselt á þær allar. Lokasýningar á Akureyri verða um helgina. Alls eru þær fimm en vegna mikillar aðsóknar eru tvær þeirra aukasýningar. Þetta má allt sjá betur á vef sýningarinnar. konungurljonanna.com, og þar er hægt að komast í samband við miðasölu á meðan enn eru sæti laus.

Keyptu heila sýningu

Ein sýning helgarinnar er til marks um vinsældir og jákvæðar umsagnir, en TM, Tryggingamiðstöðin ákvað að kaupa eina sýningu og bjóða á hana hópi starfsmanna og viðskiptavina og fjölskyldum þeirra. Um það má lesa á facebooksíðu LMA.

Þótt sýningum á Konungi ljónanna ljúki hér á Akureyri er ævintýrið ekki úti því fyrirhuguð er sýning í Austurbæ í Reykjavík LAUGARDAGINN 30. apríl. Talsvert er langt síðan LMA fór í leikferðir, en lengi vel var farið árlega til Siglufjarðar og sýnt þar. Áður hefur verið farið til Reykjavíkur með sýningu og auk þess til dæmis ti Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Húsavíkur. Leikferðirnar voru skemmtileg og lærdómsrík viðbót við þann skóla sem það er að setja leikverk á svið og sýna.