- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nemendur í áfanganum „Bresk menning“ lögðu af stað í menningarferð sína til London, síðastliðinn þriðjudag. Í þetta sinn var flogið beint frá Akureyri, sem var góð tilbreyting frá því að þurfa að taka rútu suður yfir heiðar fyrir flug.
Þar sem við lentum seint þá hófst formleg dagskrá ekki fyrr en daginn eftir og byrjuðum við niðri við Westminster. Þar kíktum við á þinghúsin, Big Ben, Westminster Abbey og umhverfið þar í kring, áður en við löbbuðum að Buckingham höll og horfðum á varðskiptin. Við höllina var mikill viðbúnaður þar sem meðlimir konungsfjölskyldunnar voru í húsi og með viðburði í miðborginni þennan dag. Eftir það lá leiðin á Borough markaðinn þar sem nemendur fengu sér að borða og kíktu á markaðsúrvalið, svo var labbað yfir Thames, þar sem við höfðum útsýni yfir Shakespeare Globe, Tower Bridge og fleira. Síðasta stoppið þann daginn var við minnisvarðann um eldsvoðann mikla frá 1666, þar sem rætt var um þann atburð og þau áhrif sem hann hafði á London og m.a. byggingalist í miðborginni. Eftir að formlegri dagskrá lauk fór svo hópur af nemendum á fótboltaleik á heimavelli Millwall, sem er í austur London.
Á fimmtudeginum byrjaði dagurinn með göngutúr, á göngunni sáum við Kensington Gardens, minnisvarðann um Albert (eiginmann Viktoríu drottningar), Royal Albert Hall og svo skólahúsnæði besta háskóla Evrópu, Imperial College. Við enduðum svo á V&A safninu, þar sem nemendur kíktu á listverkin og forngripina sem eru þar til sýnis, en þar var af nógu að taka. Svo fórum við sem leið lá niður í miðborgina, eftir smá matarpásu skelltum við okkur í Sondheim leikhúsið og sáum söngleikinn Vesalingana (Les Misérables). Eftir að dagskrá lauk þann daginn voru aftur nokkrir sem skelltu sér á fótboltaleik, í þetta sinn á heimavelli Chelsea, sem var steinsnar frá gististað okkar.
Á föstudeginum fengu nemendur svo frjálsan dag til þess að versla aðeins og skoða sig um sjálf en svo var sameiginlegur kvöldmatur fyrir hópinn. Lokakvöldið var almennt tekið snemma, þar sem ferðalagið okkar heim myndi hefjast um kl. 4.30 þessa nótt. Það var svo glaður en þreyttur hópur sem lenti á Akureyri í hádeginu á laugardeginum, nokkrum þúsundköllum fátækari og reynslunni ríkari.
Ágústína Gunnarsdóttir, enskukennari og fararstjóri