Skuggakosningar 2016
Skuggakosningar 2016

Vikuna 10. til 13. október verður haldin lýðræðisvika í framhaldsskólum á Íslandi en hún gengur út á það að efla lýðræðisvitund framhaldskólanema. Eins og flestir vita eru alþingiskosningar nú á næsta leyti og er það mjög mikilvægt að ungt fólk kynni sér flokkana, móti sér skoðun og nýti síðan kosningaréttinn sinn í framhaldi af því.

Hér í Menntaskólanum á Akureyri mun Skólafélagið Huginn standa fyrir málþingi þriðjudaginn 11. október klukkan 13:00 þar sem tíu flokkar munu koma saman og ræða hin ýmsu mál sem brenna á ungu fólki sem öðrum. Daginn eftir, þann 12. október verða framboð boðin velkomin bæði í löngu frímínútum sem og matartíma þar sem þau geta reynt að veiða atkvæði okkar menntskælinga með ýmsum brögðum, svo sem með mat, barmnælum og fleiru.

Þann 13. október verða síðan haldnar skuggakosningar innan skólans líkt og í flest öllum framhaldsskólum þar sem allir nemendur fá tækifæri til þess að kjósa þann flokk sem þeim líst best á, hvort sem þau hafa náð 18 ára aldri eða ekki. Kosningarnar verða framkvæmdar eins og venjulegar kosningar og munu þær gefa nemendum góða innsýn í hvernig þær fara fram. Niðurstöður þessara kosninga verða síðan birtar eftir að kjörstöðum verður lokað í alþingiskosningunum sjálfum þann 29. október.

Þessa viku eru kennarar hvattir til þess að ræða við nemendur í tímum og skapa umræðu um pólitík og mikilvægi þess að kjósa ásamt því að leggja lýðræðisleg verkefni fyrir nemendur. Ef áhugi er fyrir því að kynna sér þessa lýðræðisviku betur þá bendum við á vefsíðuna http://egkys.is/ þar sem allar upplýsingar um bæði vikuna og skuggakosningarnar er að finna.

Stjórn Hugins