Brunnárhlaup 2011
Brunnárhlaup 2011

Í dag var opinberlega tilkynnt að Menntaskólinn á Akureyri tæki þátt í því verkefni á vegum Lýðheilsustofnunar Landlæknisembættisins að vera heilsueflandi framhaldsskóli. Þetta er fimm ára verkefni sem felur í sér að efla líkamlega og andlega heilsu allra skólaþegna, fyrst hvað varðar hreyfingu og mataræði. Stjórnandi verkefnisins er Hólmfríður Jóhannsdóttir íþróttakennari og forvarnafulltrúi MA.

Jón Már Héðinsson skólameistari gat þess í stuttu spjalli sínu í Kvosinni í dag að þetta þýddi ekki byltingu í lífi nemenda og starfsfólks, enda hefði skólinn um árabil haft þá stefnu að allir skólaþegnar bæru ábyrgð á heilbrigðu líferni sínu, meðal annars hreyfingu. Hér væri hnykkt á því og fleiri atriði dregin inn í spilið.

Í Kvosinni í dag var dagskrá með ávörpum, hljómsveitarleik, söng sex stúlkna og skólameistari og forvarnafulltrúi stjórnuði dansfimiatriði. Mesta athygli vakti þó atriði sem Íþróttafélag skólans, ÍMA, stóð fyrir en það var kynning á jaðaríþróttinni parkour, þar sem hópur ungra manna fór á stökkum með verulegu flækjustigi upp á palla, yfir gólf og jafnvel upp háa veggi.

Að lokinni dagskránni var fáni verkefnisins dreginn að húni á skólatorginu, en það gerðu skólameistari og Héðinn S. Björnsson verkefnisstjóri fræðslumála hjá Landlæknisembættinu. Að því loknu hófst Brunnárhlaupið, götuhlaup, þar sem velja mátti að hlaupa 2,5 eða 5 kílómetra. Lagt var af stað frá Gamla skóla og var þátttakan meiri en nokkru sinni áður. Verðlaun fyrir bestan árangur og mesta þátttöku bekkja verða veitt á morgun. Hér er mynd af því þegar þeir lögðu af stað sem hlupu 5 kílómetra.

Myndasyrpa úr Kvosinni og frá Brunnárhlaupi er hér.