Lið MA í MORFÍs eftir undanúrslitin
Lið MA í MORFÍs eftir undanúrslitin

Lið MA og MH öttu kappi í undanúrslitum MORFÍs í gær. Keppt var í Kvosinni en skólarnir tókust á um hvort sé máttugra, penninn eða sverðið. Gestirnir frá Hamrahlíð mæltu með yfirburðum pennans en heimaliðið var á móti. Rimman var jöfn og andrúmsloftið því þrungið spennu þegar dómarinn tilkynnti úrslitin. Svo fór að MA bar sigur úr býtum og er því komið í úrslit Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna árið 2024. Frábær frammistaða hjá liðinu okkar.

Okkar fólk mætir Flensborgarskólanum í úrslitaviðureign þann 19. apríl í Háskólabíói. Þetta verður í fjórða skiptið sem MA keppir í úrslitum MORFÍs. Fyrri úrslitaviðureignir MA voru árin 1999, 2001 og 2022. Menntaskólinn á Akureyri hefur tvisvar fagnað sigri í keppninni, árin 1999 og 2001.

Á meðfylgjandi mynd má sjá liðsfólk MA eftir sigurinn gegn MH. Frá vinstri: Benjamín Þorri Bergsson frummælandi, Heiðrún Hafdal meðmælandi, Reynir Þór Jóhannsson liðsstjóri og Krista Sól Guðjónsdóttir stuðningsmaður. Að þjálfun liðsins koma þau Ingvar Þóroddsson, Embla Kristín Blöndal, Þröstur Ingvarsson og Jóhannes Óli Sveinsson, allt fyrrum nemendur skólans.