- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menntaskólinn á Akureyri mætir Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í 16 liða úrslitum Mælsku og rökræðukeppni framhaldskólanna (MORFÍs) á laugardaginn. Viðureignin fer fram í MA og hefst hún kl. 15:00. Vegna samkomutakmarkana verður fámennt en góðmennt í Kvosinni. Fyrir þá sem vilja fylgjast með þegar skólarnir takast á, skal bent á beina útsendingu á vefnum.
Þátttakendur í Morfís hafa í gegnum tíðina tekist á um hin ýmsu álitamál. Að þessu sinni fær lið MA það hlutverk að vera á móti því að maður eigi að elta drauma sína á meðan lið FG færir rök með málefninu. Vörn gegn sókn, kunna einhverjir að segja. Liðsmenn MA eru þau Laufey Lind Ingibergsdóttir liðsstjóri, Björn Gunnar Jónsson frummælandi, Jóhannes Óli Sveinsson meðmælandi og Malín Marta Eyfjörð Ægisdóttir stuðningsmaður. Við slógum á þráðinn (lyklaborðið) til Björns Gunnars frummælanda sem jafnframt er forseti stjórnar Málfundafélags MA og spurðum hann hvernig undirbúningi væri háttað fyrir laugardaginn.
„Æfingar hafa gengið vel fyrir sig og liðið hefur verið í stanslausri vinnu frá tíu á morgnana og langt fram á kvöld alla vikuna. Æfingaferlið felst í því að skrifa sex ræður í heildina ásamt því að skrifa svör við því sem gæti mögulega komið frá andstæðingnum. Þegar ræðurnar eru tilbúnar eru þær þuldar 50 sinnum til að muna þær utanbókar.“
Lið FG er verðugur andstæðingur og því ljóst að við ramman reip verður að draga á laugardaginn. Á heimasíðu skólans, fg.is er rætt við þjálfara liðsins Daníel Breka Johnsen og hann spurður út í rimmuna við MA. Hann segist bjartsýnn á gengi liðsins, það hafi æft stíft að undanförnu og æfingar gengið vel. „Gott gengi FG og nú er bara að tala norðanmenn í rot og þrot.“
Við trúum og treystum á að okkar fólk snúi vörn í sókn og sæki til sigurs í Kvosinni á laugardag. Áfram MA!