Nú stendur yfir lýðræðisvika í nokkrum framhaldsskólum landsins, meðal annars í Menntaskólanum á Akureyri. Að því tilefni var blásið til fundar í Kvosinni í gær, þar sem fulltrúar flokka í Norðausturkjördæmi (allt karlar) komu og svöruðu spurningum nemenda, en Karólína Rós Ólafsdóttir stýrði fundi af stakri röggsemi. Rebekka Hekla Halldórsdóttir sem er í stjórn Málfundafélagsins tók saman eftirfarandi:

Málfundur var haldinn í Kvos Menntaskólans þann 11. október þar sem 10 frambjóðendur flokka í Norðausturkjördæmi sátu fyrir spurningum nemenda. Tilgangur málfundarins var að gefa nemendunum dálitla sýn yfir það sem flokkarnir hafa upp á að bjóða svo þeir eigi auðveldara með að móta sér skoðun fyrir kosningarnar, sem eru handan við hornið. Málfundurinn lenti á fyrsta námsmatsdeginum í skólanum, en það dró ekki úr þátttöku fundargesta því Kvosin var vel setin af fólki á öllum aldri.

Málfundafélagið og Huginn, skólafélag MA, þakka frambjóðendunum, og þeim sem sátu fundinn, kærlega fyrir komuna.

Í framhaldi af þessum fundi létu fulltrúar framboðanna sjá til sín í Kvosinni í dag og dreifðu bæklingum og blöðrum og buðu upp á sælgæti. Á morgun, fimmtudag, eru svo skuggakosningar í skólanum í umsjá nemenda, eins og reyndar öll lýðræðisvikan. Nemendur ganga þá að kjörborði á Miðsal og Norðursal. Kjörfundur hefst klukkan 9.00 og stendur til 16.00.

Myndir á fundinum í gær tók Bjarney Anna Þórsdóttir.

Framboð