Nemendur í valáfanga um París fóru í pílagrímsferð til borgarinnar ásamt Erni Þór Emilssyni í Dymbilvikunni. Unnur Anna Árnadóttir skrifaði þennan pistil um ferðina og Hafrún Gunnarsdóttir tók myndina sem hér fylgir við pýramídann í Louvre-garðinum.

Þann 9. apríl síðastliðinn fórum við, 21 nemandi úr 4. bekk, til Parísar. Við áttum það öll sameiginlegt að hafa lokið stúdentsprófi í frönsku og höfðum skráð okkur í áfangann “Man ég þig París”. Við fórum ásamt okkar einstaka kennara Erni Þór og gerði hann ferðina ógleymanlega fyrir okkur. Við höfðum flest safnað fyrir þessari ferð síðan í 2. bekk og vorum því búin að bíða ansi lengi eftir henni. Það var því ákaflega gaman þegar loksins kom að því að setjast upp í flugvélina.

Þegar við komum til Parísar varð okkur strax ljóst að þessi ferð yrði ekki nein slökunarferð. “Krakkar, það er tempó!” var mjög algeng setning hjá Erni Þór. Að vera í fylgd Arnar með sína löngu fætur og enn stærri skrefalengd var ekkert grín. Við tókum fjögur skref á meðan hann tók eitt. En það var algjörlega þess virði. Við náðum að skoða svo margt í París sem við hefðum aldrei skoðað án hans.  Eiffel Turnin, Champs Elyseés, Versalir, Sacré Cæur, Moulin Rouge, Notre Dame og Louvre safnið eru aðeins brot af því sem við skoðuðum á einni viku. Það að fara með Erni í gegnum allt þetta þýddi að við fórum sko engar “plebbaleiðir”, eins og hann orðaði það sjálfur. Ef vörðurinn benti okkur á að túristar færu til hægri, þá fór hann með okkur til vinstri.

Við borðuðum á mjög mörgum veitingastöðum og heimsóttum mörg kaffihús sem flest voru frábær og gáfu okkur svolitla innsýn í menningu og næturlíf Parísar.  Þar reyndum við okkar besta að tala frönskuna sem Örn hefur verið að kenna okkur undanfarin ár og komumst að því að við skildum meira en við gátum talað. Við teljum þó að Frakkarnir hafi verið óþarflega erfiðir við okkur því við vorum viss um að við værum að tala með ágætis hreimi. Þeir skildu okkur þó flestir þegar við kvöddum þá með “au revoir”.

Eftir frábæra viku sem leið alltof hratt í París, kvöddum við borgina með trega. Ég held að ég tali fyrir hvern og einn einasta nemanda sem var í ferðinni þegar ég segi: “Ég man þig París, au revoir”.

 

- Unnur Anna Árnadóttir, 4.T