- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Fimmtudaginn 23.september fóru nemendur í menningarlæsi í námsferð til Siglufjarðar í blíðskaparveðri og nutu gestrisni heimamanna. Í ferðinni heimsóttu nemendur Síldarminjasafnið og kynntust aðstæðum síldarstúlkna. Auk þess var farið í Bátahúsið og reynt að setja sig í spor þeirra sem tóku þátt í síldarævintýrinu. Hópurinn fór í heimsókn í Genis þar sem Jón Garðar Steingrímsson sagði frá frumkvöðlastarfi fyrirtækisins og uppgangi bæjarins. Aðalheiður Eysteinsdóttir tók á móti nemendum á vinnustofu sinni og fjallaði um starf sjálfstætt starfandi listamanns. Að lokum má nefna að hópurinn naut aðstöðu kirkjunnar í safnaðarheimilinu og leiðsagnar séra Sigurðar Ægissonar um sögu Siglufjarðar og kirkjunnar. Þessi ferð var kærkomin tilbreyting eftir langa og stranga covid einangrun í skólastarfinu og voru nemendur sér og sínum til sóma.
Á mánudagsmorgun fengu nemendur svo góðan gest á skjáinn. Bergur Ebbi, rithöfundur, uppistandari og framtíðarfræðingur, hélt fyrirlestur um mikilvægi þess að vera læs á menninguna í tengslum við störf framtíðarinnar. Skemmtileg og þörf hugvekja. (Margrét og Sigríður, læsiskennarar).