Sameiginlegar menntabúðir framhaldsskólanna á Norðausturlandi
Menntabúðir eru að festa rætur í MA og eru nú á sínu öðru ári. Aðalmarkmiðið með #MenntMA er að skapa tíma og vettvang fyrir kennara til þess að ræða helstu mál sem brenna á þeim og læra hvert af öðru. Þær eru að jafnaði einu sinni í mánuði og eru þá haldnar nokkrar málstofur hverju sinni sem einhver úr hópi kennara leiðir.
Menntabúðir febrúarmánaðar voru fjölmennari og viðameiri en alla jafna, en þá slógust aðrir skólar á Norðausturlandi með í för og er ætlunin í framhaldinu að starfsfólk allra skólanna á norðaustursvæðinu myndi #menntNOR, sameiginlegar menntabúðir, sem haldnar verða einu sinni á önn.
Á menntabúðunum þann 4. febrúar héldu kennarar úr MA, MTR og VMA eftirfarandi málstofur:
- Anna Eyfjörð, frönskukennari, og Arnfríður Hermannsdóttir, efnafræðikennari, sem báðar eru í liði UT-ráðgjafa í MA fjölluðu um fjölbreytta notkunarmöguleika stafrænna eyðublaða í kennslu (Microsoft Forms);
- Hilmar Friðjónsson, kennari við VMA, sýndi hvernig hann nýtir QR-kóða í stærðfræðikennslu og í kennsluefni sem hann hefur sett saman;
- Guðjón H. Hauksson, kennari og þjónustustjóri tölvudeildar fjallaði almennt um hagnýtingu upplýsingatækni í kennslu, umræðuna í kennarastéttinni og nefndi einnig nokkur góð tæki til þess að virkja nemendur;
- Haukur Eiríksson, rafiðnakennari við VMA, sagði frá meistaraprófsritgerð sinni sem byggði á starfendarannsókn um notkun upplýsingatækni í námi og kennslu;
- Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir, kennarar við Menntaskólann á Tröllaskaga, kynntu ýmsar leiðir til þess að útbúa kennslumyndbönd og góðar leiðir til að miðla þeim í kennslunni;
- Jóhann Þorsteinsson, kennari við VMA, sýndi svo hvernig má nota Google Docs til þess að ná í texta úr myndaskrám og PDF-skjölum og gera hann hæfan til ritvinnslu.
|
|
Vonast er til að þetta sé upphafið að enn frekara samstarfi SAMNOR skólanna á menntabúðum.
Þess má geta að í menntabúðunum, sem starfsfólk MA heldur í apríl, er fyrirhugað að nemendur eigi aðkomu að öllum málstofum.