- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nemendamenntabúðir svokallaðar voru haldnar í annað skiptið í MA 13. febrúar. Nemendamenntabúðir eru menntabúðir sem er alfarið stýrt af nemendum, þeir velja efni og stýra málstofum en öllum í skólanum er velkomið að taka þátt. Mikilvægt er að skapa vettvang fyrir slíkar umræður bæði fyrir nemendur og starfsfólk.
Þessar menntabúðir gefa nemendum tækifæri á að láta rödd sína heyrast og hafa jákvæð áhrif á skólasamfélagið. Lýðræðislegar umræður og þátttaka í þeim eflir víðsýni og viðhorf nemenda til mannréttinda fólks. Mikilvægt er að allar skoðanir fái notið sín og að fá að taka þátt og vera hluti af vettvangi þar sem maður æfist í lýðræðislegri þátttöku á grundvelli gagnkvæmrar virðingar.
Fyrir kennara og annað starfsfólk er þetta ekki síður mikilvægt. Allt skólastarf er jú nemendanna vegna og það er mikilvægt fyrir starfsfólkið að gefa sér tíma til að hlýða á raddir nemendanna okkar því við viljum auðvitað skapa þeim sem best skilyrði til náms og starfs í skólanum.
Málstofurnar að þessu sinni voru fjórar. Aðgengismál í MA þar sem fjallað var um hvernig MA stendur sig í aðgengi fyrir alla og hvernig við getum gert betur. Þar kom fram að mikilvægt sé að gera breytingar á aðgengi – ekki „út af“ nemendum heldur fyrir þá og alla aðra sem á eftir koma. Hinseginleikinn í MA þar sem fram kom að þótt ekki væri beint misrétti í skólanum væri samfélagslegt misrétti, þ.e. orðræðan væri oft neikvæð og fordómar undir yfirborðinu. Mikilvægt er að allir taki höndum saman að vinna gegn þessu. Jákvæð samskipti var þriðja málstofan þar sem rætt var um ýmislegt varðandi samskipti í skólanum, bæði nemenda á milli og á milli kennara og nemenda. Þar má ýmislegt bæta. Skipulag nemenda var áhugaverð málstofa þar sem nemendum miðluðu gagnlegum aðferðum til að skipuleggja sig því það er sannarlega mikilvægt að vera með allt á hreinu í krefjandi námi og ekkert koma sér á óvart í þeim málum.
Anna Eyfjörð